Erlent

Amman í Jökulsárlóni lýsir hrakförunum: "Þá byrjaði hásætið að velta“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Alda hrifsaði ísjakann með sér og bar Judith Streng með sér út á Atlantshafið.
Alda hrifsaði ísjakann með sér og bar Judith Streng með sér út á Atlantshafið. Myndir/Catherine Streng
Judith Streng, bandarískur ferðamaður sem var stödd hér á landi í vikunni, lýsir því þegar hún komst í hann krappann við Jökulsárlón á þriðjudag í samtali við bandarísku fréttastofuna ABC í dag. Hrakfarir Judith vöktu heimsathygli í vikunni en ísjaki, sem hún settist á, flaut á haf út.

Barnabarn Judith, Catherine Streng, birti ljósmyndir af atburðarásinni á Twitter-síðu sinni á miðvikudag, við góðar undirtektir. Judith kom hingað til lands ásamt syni sínum, Rod Streng, síðastliðinn laugardag en mæðginin komu við í Jökulsárlóni á þriðjudag, með fyrrgreindum afleiðingum.

Flaut út á haf í „hásætinu“

„Þetta [ísjakinn] var í laginu eins og kjörinn staður til að sitja á. Þú sérð það með því að skoða lagið á honum og ég hugsaði, jæja, þetta lítur út fyrir að vera skemmtilegt,“ segir Judith í samtali við ABC-fréttastofuna.

Judith ræddi við sjónvarpsmenn ABC í gegnum Skype.SKjáskot/ABC
Hún lýsir því svo þegar hiti tók að færast í leikinn – og kallar ísjakann jafnframt „hásæti“.

„Þegar ég fór upp á hann byrjaði hann að riða og það var alda á leiðinni. Gríðarstór alda kom aðvífandi og þá byrjaði hásætið að velta og ég fann að ég var að renna af því.“

Judith kveðst hafa haldið að jakinn væri öruggur og skorðaður á sínum stað. Máli sínu til stuðnings nefndi hún að nokkrar stúlkur hafi tyllt sér í „hásætið“ á undan henni, án vandkvæða.

„En ég er ekki mjög þung. Þannig að það hefur líklega verið auðveldara að fljóta af stað með mig.“

Tækifæri til að verða loksins drottning

Þá er Judith upplitsdjörf þrátt fyrir hrakfarirnar í lóninu.

„Þú veist, ég óskaði þess alltaf að verða drottning. Ég meina, láttu ekki svona, þetta var tækifærið.“

Catherine, sonardóttir Judith, lýsti því í viðtali við Vísi í vikunni að Flórídamaður að nafni Randy LaCount hafi komið ömmu sinni til bjargar. Henni varð því ekki meint af hinu stutta ferðalagi út á rúmsjó.

Þá hafa fleiri erlendir miðlar fjallað um mál Judith, þar á meðal bandaríska Fox-sjónvarpsstöðin sem birti frétt í dag byggða á viðtali ABC.


Tengdar fréttir

Alda bar ömmu frá Íslandsströndum

Bandarískur ferðamaður komst í hann krappan við Jökulsárlón á þriðjudag þegar ísjaki sem hann hafði sest á flaut út á sjó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×