Lífið

Hjólhýsahasar Hatara og Friðriks Ómars

Jakob Bjarnar skrifar
Hatari og Friðrik Ómar þykja sigurstranglegir í Söngvakeppninni í ár. Hjólhýsin sjást hér parkeruð við Laugardalshöll í kvöld.
Hatari og Friðrik Ómar þykja sigurstranglegir í Söngvakeppninni í ár. Hjólhýsin sjást hér parkeruð við Laugardalshöll í kvöld. Mynd/Samsett
Friðrik Ómar var í dag mættur á keppnisstað Söngvakeppninnar með hjólhýsi til að hafa við Laugardalshöll en þeir í Hatari brugðust við með því að mæta með enn stærra hjólhýsi.

Spennan magnast vegna Söngvakeppninnar sem fram fer annað kvöld, en þá keppa fimm flytjendur um það hver þeirra fer til Tel Aviv í Ísrael í maí og verður fulltrúi Íslands í Eurovision-söngvakeppninni. Þau sem keppa um hylli þjóðarinnar á morgun eru hljómsveitin Hatari, sem flestir meta sem sigurstranglegasta og svo Friðrik Ómar, Kristína Skoubo, Hera Björk og Thara Mobee. Spennu fylgja átök og þeirra sést staður jafnt utan sviðs sem innan. 

Klemens Nikulásson Hannigan, einn Hataramanna, stendur hér hreykinn við hjólhýsi sveitarinnar.Mynd/Aðsend
Keppnin annað kvöld verður haldin í Laugardalshöll, sem er auðvitað að upplagi handboltahús fyrst og fremst. Friðrik Ómar gat ekki séð þær aðstæður sem heppilegar fyrir búningsherbergi poppstjörnu, svitastorkið rými frá fornu fari og með klísturklessur á trébekkjum. Hann var því í dag mættur með hjólhýsi sem komið hefur verið fyrir bak við Höllina, hjá starfsmannainnganginum. Þá sem búningsherbergi sitt og afdrep.

Samkvæmt heimildum Vísis mun meðlimum Hatara ekki hafa litist allskostar vel á að vera með þeim hætti settir skör lægra en Friðrik Ómar. Þeir gripu því einfaldlega til þess ráðs að fá sér einnig hjólhýsi þar sem þeir geta undirbúið sig, málað og farið í sinn sviðsklæðnað án þess að þurfa að blanda um of geði við aðra keppendur. 

Hatara-menn vildu sem sagt ekki minni menn vera en Friðrik Ómar og reyndar toppa þeir Dalvíkinginn knáa því þeirra hjólhýsi er talsvert stærra. Meðan hjólhýsi Friðriks Ómars er fimm metrar á lengd telur hjólhýsi Hatara níu metra. Af þessu má ráða að verulegur hiti sé að færast í leikinn og þurfa menn nú að troðast hver um annan þveran í rýminu sem er við starfsmannainnganginn bak við Laugardalshöllina.

Hjólhýsi Hatara og Friðriks Ómars í rigningunni fyrir utan Laugardalshöll í kvöld.Vísir/Vésteinn
Hjólhúsi Hataramanna er skreytt fánum sveitarinnar.Vísir/Vésteinn

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.