Viðskipti erlent

Stjórnvöld í Kanada tilbúin að framselja fjármálastjóra Huawei til Bandaríkjanna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Meng Wanzhou er æðsti fjárreiðumaður Huawei.
Meng Wanzhou er æðsti fjárreiðumaður Huawei. Ben Nelms/Getty
Stjórnvöld í Kanada hafa lýst því yfir að þau séu tilbúin að framselja Meng Wanzhou, fjármálastjóra og dóttur stofnanda kínverska tæknirisans Huawei, til Bandaríkjanna. Þau segja þó að lokaákvörðun um framsal hennar verði að vera í höndum dómstóla.

Dómsmálaráðuneyti Kanada hafði frest til dagsins í dag til þess að ákveða hvort farið yrði með framsalsmálið fyrir dómstóla þar í landi. Málið er þó hvorki dómsmál yfir Meng eða Huawei, heldur snýr það að því hvort túlka megi málið sem svo að það falli undir framsalssamning milli Bandaríkjanna og Kanada.

„Meðferð framsalsmáls fyrir dómi er ekki réttarhöld sem ætlað er að sanna sekt eða sakleysi,“ segir í yfirlýsingu sem dómsmálaráðuneyti Kanada gaf út í dag.

„Verði lokaniðurstaðan sú að manneskja verði framseld frá Kanada til þess að hljóta málsmeðferð í öðru landi, verður réttað yfir henni þar.“

Meng var handtekin í Kanada í desember að beiðni stjórnvalda í Bandaríkjunum, sem í janúar lögðu fram 13 ákærur á hendur kínverska samskiptafyrirtækinu og Meng, sem er æðsti fjárreiðumaður þess.

Meðal þess sem ákærurnar snúa að eru fjársvik, þjófnaður á tækni í eigu bandaríska fyrirtækisins T-Mobile og hindrun framgangs réttvísinnar. Bæði Meng og Huawei hafa þvertekið fyrir allar ásakanir Bandaríkjanna á hendur sér.

Málið hefur dregið þó nokkurn dilk á eftir sér á sviði alþjóðastjórnmála og telja sérfræðingar samband Bandaríkjanna og Kanada við Kína vera þó nokkuð skaddað vegna þess.

 


Tengdar fréttir

Krefjast þess að Bandaríkin láti af framsalskröfu

Yfirvöld í Kína krefjast þess að Bandaríkin láti af framsalskröfu gegn Meng Wanzhou, aðstoðarfjármálastjóra kínverska tæknirisans Huawei, sem handtekin var í Kanada fyrir áramót.

Trudeau bað sendiherra Kanada í Kína um að segja af sér

Trudeau hefur ekki sagt hvers vegna hann greip til þessara aðgerða en afsögnin hefur verið rekin til ummæla hans um framsalsbeiðni Bandaríkjanna gagnvart Meng Wanzhou, fjármálastjóra kínverska fyrirtækisins Huawei.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×