Samninganefnd Vegagerðarinnar fór á fund fulltrúa skipasmíðastöðvarinnar Crist S.A. í Póllandi í vikunni. Rætt var um lokauppgjör vegna smíði nýs Herjólfs. Vegagerðin gerði skipasmíðastöðinni tilboð, búist er við svari á næstu dögum.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni fer skipasmíðastöðin ekki fram á viðbótargreiðslu vegna aukaverka. Ástæða aukagreiðslunnar er sögð vera hærri heildarkostnaður við framkvæmdina en upphaflega var gert ráð fyrir.
Afhending dregist
Eitt af þeim atriðum sem tekist er á um eru dagsektir vegna seinkunar verksins. Í fyrstu átti að afhenda nýjan Herjólf 1. júní í fyrra. Vegna breytinga var afhendingu seinkað til 1. ágúst á síðasta ári. Þá var samið um 140 daga seinkun til viðbótar. Svo tók við 30 daga tímabil án dagsekta.Vegagerðin miðar við að dagsektir hafi fallið á verkið frá miðjum janúar síðastliðnum. Dagsektir nema 25.000 evrum fyrstu 90 dagana, rúmum þremur milljónum króna á dag. Eftir það eru dagsektir 12.500 evrur, ríflega ein og hálf milljón króna á dag.
Vegagerðin telur dagsektir vegna smíði nýs Herjólfs nema samtals 200 milljónum íslenskra króna.
Smíði Herjólfs er á lokastigi. Úttektir og prófanir eru eftir. Vegagerðin metur það svo að skipið geti verið tilbúið til afhendingar um næstu mánaðamót, að því gefnu að samningar náist við skipasmíðastöðina um lokauppgjör.