Innlent

Þingmaður VG: Sveitarfélögin geta lækkað leikskólagjöld eða fryst þau

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður VG, sem   talaði m.a. um aðkomu sveitarfélaganna á fundinum á Selfossi.
Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður VG, sem talaði m.a. um aðkomu sveitarfélaganna á fundinum á Selfossi. Magnús Hlynur Hreiðarsson.
Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri grænni segir nauðsynlegt að fá viðbrögð sveitarfélaga inn í þær kjaraviðræður sem standa yfir, hvað þau geti gert til að liðka fyrir samningum. Þingmaðurinn segir að sveitarfélögin geti lækkað leikskólagjöld eða fryst þau og lækkað þjónustugjöld sín svo eitthvað sé nefnt.

Nokkrir Þingmenn Vinstri grænna með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra í fararbroddi voru nýlega með opinn fund á Hótel Selfossi þar sem ýmis mál voru tekin fyrir og spurningum fundarmanna svarað. Ólafur Þór Gunnarson, þingmaður í Suðvesturkjördæmi fjallaði m.a. um kjaraviðræðurnar og nefndi sveitarfélög landsins sérstaklega í sínu máli.

„Sveitarfélögin eru þriðjungur af opinberum umsvifum á Íslandi þannig að það er beinlínis ósanngjarnt ef við ætlum að hugsa okkur það að við ætlum að ná einhverri lendingu, einhverri samfélagssátt, þá er ósanngjarnt að líta fram hjá því að sveitarfélögin geti tekið þátt. Þau geta til að mynda lækkað leikskólagjöld eða að minnsta kosti fryst þau, þau geta lækkað þjónustugjöld, þau geta haft áhrif á það hvað við borgum fyrir grunnskólann okkar og það eru fleiri og fleiri atriði, sem þið náttúrulega vitið manna best, að sveitarfélögin geta komið þarna inn á“, sagði Ólafur Þór á fundinum.

Þrír af þingmönnum VG mættu á fundinn á Selfossi með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra.Magnús Hlynur
Ólafur leggur ríka áherslu á að allir komi að samningaborðinu, sveitarfélögin séu þar mikilvægur hlekkur.

„Þau eiga að koma að þessu og ríkisvaldið á að koma að þessu. Ef við ætlum að lenda einhverri sátt í samfélaginu þá þurfa allir aðilar, sem koma í rauninni að því að mynda þennan pakka, sem eru kjör almennings, það þurfa allir að koma að því, þar inn í þurfa sveitarfélögin svo sannarlega að vera“, bætir Ólafur Þór við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×