Í rannsókn vísindamannanna var rýnt í erfðaefni þriggja fyrstnefndu afbrigðanna með það fyrir augum að kanna erfðabreytileika milli þeirra og reyna að komast að því hvaða gen og þroskunarferlar tengjast þróun mismundandi afbrigða. Í ljós kom að murta, kuðungableikja og dvergbleika eru erfðafræðilega aðskildar og virðast hafa verið það í fjölda kynslóða.
Sigurður Sveinn Snorrason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands ræddi um rannsóknina í Bítinu í morgun.
„Þessi nýjasta rannsókn, þar erum við að horfa á þetta pínulítið öðruvísi. Við tökum sömu gögnin af því við erum með mikið af gögnum um breytileika í öllum þessum genum þar sem við vorum að kanna genatjáninguna. Við spurðum, hvernig lítur þessi breytileiki út þegar við berum saman tegundirnar,“ segir Sigurður Sveinn.
Álykta megi nokkuð sterklega um það að þessi aðskilnaður hafi orðið nokkuð snemma. þetta séu núna afbrigði sem séu orðin frekar skýrt afmörkuð.
„Þau æxlast ekki mikið saman, og það er nú það sem við skilgreinum tegund á, að þær hætti að æxlast saman, hvort þær gætu það ef skilyrði breyttust, það vitum við ekki og þess vegna vitum við ekki hvernig úrslitin verða. Tíminn einn mun skera úr um það. Við teljum okkur samt sem áður vera að horfa á fyrstu skrefin og kannski mikilvægustu skrefin í tegundarmyndunarferlinu,“ segir Sigurður Sveinn.
Í myndspilaranum hér að neðan er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð Snorra um rannsóknina í fullri lengd.