Íslenski boltinn

Víðismenn minnast Grétars Einarssonar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Grétar Einarsson var lykilmaður í Víðisliðinu á níunda áratugnum.
Grétar Einarsson var lykilmaður í Víðisliðinu á níunda áratugnum. Mynd/Víðir
Knattspyrnufélagið Víðir úr Garði minnist í dag markahæsta leikmanns félagsins í efstu deild frá upphafi en Grétar Einarsson féll frá 16. september eftir harða en skammvinna baráttu við alvarleg veikindi.

Grétar var lykilmaður í ævintýralegum árangri Víðis á níunda áratugnum þar sem þetta litla bæjarfélag eignaðist lið sem spilaði þrjú tímabil í efstu deild (1985-87) og komst í bikarúrslitaleikinn árið 1987.

Grétar Einarsson fæddist í október árið 1964 og var því á 55 aldursári.

Grétar er leikjahæsti leikmaður Víðis í efstu deild (ásamt Vilbergi Þorvaldssyni) með 71 leik og hefur jafnframt skorað flest mörk fyrir Víði í efstu deild, 18 talsins. Á ferli sínum lék Grétar alls 323 leiki og skoraði 159 mörk fyrir Víði.

Grétar lék einnig með Keflavík, FH og Grindavík og spilaði þrjá A-landsleiki 1991 til 1992. Hann skoraði alls 34 mörk í 150 leikjum í efstu deild karla á Íslandi.

Grétar spilaði síðasta leik sinn fyrir Víði árið 2008 og skoraði þá mark í sigri á Árborg í bikarleik 44 ára gamall.

Eftir að Grétar hætti að spila með meistaraflokki var hann aðstoðarþjálfari hjá liðinu og sat í stjórn félagsins í fjölda ára, bæði aðalstjórn og unglingaráði.

„Grétar Einarsson var frábær liðsmaður sem allir vildu hafa í sínu liði. Hann hafði mikið keppnisskap og sigurvilja og var mikill markaskorari. Það var líka alltaf stutt í grínið hjá Grétari og það var gaman að vera í kringum hann,“ segir í minningarorðum á fésbókarsíðu Víðis sem má sjá hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×