Allt að níu hundruð flugmenn og flugþjónar írska lágfargjaldaflugfélagsins Ryanair gætu fengið reisupassann í hópuppsögn í lok sumars, að sögn Michaels O‘Leary, forstjóra félagsins. Fækkun flugferða næsta sumars vegna kyrrsetningar Boeing 737 Max-farþegaþotanna segir hann ástæðu uppsagnanna.
O‘Leary tilkynnti starfsmönnum Ryanair þetta í myndbandi. Tilkynnt yrði um uppsagnir í lok ágúst en hann nefndi ekki hversu margir kæmu til með að missa vinnuna, aðeins að félagið hefði um 900 flugmönnum og þjónum of mörgum á launaskrá, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Auk vandræðagangs Boeing nefndi O‘Leary minni hagnað, hækkandi olíuverð og óvissu um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Ryanair tilkynnti um fimmtungssamdrátt í hagnaði á öðrum ársfjórðungi á mánudag.
