Skoðun

Tvískinnungur

Gunnlaugur Stefánsson skrifar

Forystufólk ríkisstjórnarinnar hefur lýst miklum áhyggjum sínum yfir því að útlendingar eigi jarðir á Íslandi og boðar aðgerðir gegn þessum útlenska yfirgangi. Þó hafa engar fréttir borist af því, að útlenskir jarðeigendur fari illa með landið á jörðum sínum. Að vísu hafa einhverjir afhent íslenskum bændum jarðir sínar til búskapar og jafnvel ekki tekið gjald fyrir leiguna, auk þess ráðist í framkvæmdir til þess að vernda og styrkja búsvæði fiska á vatnasvæðum jarða sinna. En Landsbankinn í eigu ríkisins og einn stærsti jarðeigandi landsins beitir þeirri stefnu að gera ekki nýja leigusamninga um jarðir sínar og setur bújarðir frekar í eyði. Forystufólk ríkisstjórnarinnar gerir engar athugasemdir við það.



En á sama tíma afhenda íslenskir stjórnmálamenn heilu firðina útlenskum eldisrisum sem eru á flótta frá heimaslóðum vegna skelfilegrar reynslu af fiskeldi sínu þar. Íslenskir firðir eru afhentir útlendingunum ókeypis til þess að stunda fiskeldi í opnum sjókvíum. Eldinu fylgir mikil mengun. Talið er að tíu þúsund tonna eldi mengi á við skolpfrárennsli 150 þúsund manna borgar. Þá er útlendingunum leyft að dæla í eldiskvíarnar alls konar eitri til þess að deyfa lús og sjúkdóma – en mega ekki gera það heima hjá sér. Útlenskir eldisrisar eru þar með að breyta austfirskum og vestfirskum fjörðum í rotþrær. Forystufólki ríkisstjórnarinnar virðist líka það vel og afhendir þeim heilu firðina með bros á vör, spyr ekki einu sinni heimafólkið álits, en lofar innilega hið útlenska framtak. Og kærir sig kollótt um, þó reynslan af eldinu á heimaslóðum útlensku eldisrisanna sé skelfileg fyrir villta laxastofna og náttúruna – núna eins og tifandi tímasprengja fyrir íslenskt lífríki.



Traustið í stjórnmálum á í vök að verjast. Gæti það verið vegna þess að tvískinnungurinn er allsráðandi? Það er sagt eitt í dag og allt annað á morgun. Lýðskrumið virðir engin siðræn mörk. Allt er gott, ef það býr til fjárgróða og einhverjum boðin vinna um stund, þó afkomu þúsunda Íslendinga í sveitum landsins sé ógnað með því að menga dýrmæt gæði. Þá má náttúruverndin sín lítils og skiptir engu máli hverrar þjóðar eignarhaldið er. Það opinberar tvískinnungur forystufólks ríkisstjórnarinnar í orði og verki um ítök útlendinga á sjó og landi á Íslandi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×