Íslenski boltinn

Brynjólfur Darri: Finnst ég alltaf vera með gott sjálfstraust

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Brynjólfur Darri fagnar eftir að hafa komið Breiðabliki í 3-2 gegn Val.
Brynjólfur Darri fagnar eftir að hafa komið Breiðabliki í 3-2 gegn Val. vísir/bára
Brynjólfur Darri Willumsson, leikmaður Breiðabliks, átti góðan leik þegar Blikar gerðu 3-3 jafntefli við Valsmenn. Hann skoraði tvö mörk í leiknum. Brynjólfur hefur ekki spilað mikið í sumar en kom inn í byrjunarlið Blika í dag í stað Thomas Mikkelsen sem tók út leikbann.

„Við byrjuðum frekar illa og fengum á okkur tvö klaufaleg mörk. Við töluðum okkur svo saman og rifum okkur í gang,“ sagði Brynjólfur í samtali við Vísi eftir leik.

„Við fórum þá uppá allt annað level, það er ekki hægt að byrja svona með því að fá á sig tvö mörk, það er lélegt“

Brynjólfur var ekki sáttur með það hvernig Blikar byrjuðu leikinn en segir að það hafi verið allt annað að sjá liðið eftir að þeir töluðu saman og rifu sig í gang en var svekktur með að þeir hafi fengið á sig þetta jöfnunarmark eftir að hafa haft öll tök á leiknum

„Við fórum svo vel gíraðir inní hálfleikinn, byrjuðum svo ágætlega en um leið og við komumst yfir þá fannst mér við vera alveg með þetta þar til við fengum þetta klaufa mark á okkur, þetta á ekki að gerast“

Brynjólfur segist alltaf vera með gott sjálfstraust og tilbúinn í leikinn þegar kallið kemur, hann sýndi það í dag og skilaði tveimur mikilvægum mörkum

„Mér finnst ég alltaf vera með gott sjálfstraust, mjög gott að fá traustið og ég vonast alltaf eftir að fá fleiri mínútur en Thomas er flottur leikmaður svo það kemur bara í ljós.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×