Söguþráður myndarinnar er afar keimlíkur þeim sem birtist í myndinni Superbad, sem skartaði þeim Jonah Hill og Michael Cera í aðalhlutverkum, sem kom út fyrir um tólf árum. Framleiðendur Good Boys eru þeir Seth Rogen og Evan Goldberg sem skrifuðu handrit Good Boys.
Margir vestanhafs fagna því að þessi mynd fékk svo góðar viðtökur en þetta er fyrsta sinn í fimm mánuði sem kvikmynd nær á topp aðsóknarlistans sem ekki er framhaldsmynd eða endurgerð. Síðasta myndin til að gera það var hrollvekjan Us sem kom út í mars.
Það þótti einnig tíðindum sæta að Disney átti ekki eina af tveimur vinsælustu myndunum um liðna helgi.
Good Boys kostaði ekki nema 20 milljónir dollara í framleiðslu en þénaði 21 milljón dollara í miðasölu kvikmyndahúsa. Fjölmiðlar vestanhafs benda þó á að þó svo að þarna hafi loksins gamanmynd, sem ekki er endurgerð eða framhaldsmynd, náð á toppinn þá er hún sú aðsóknarminnsta til að ná á toppinn síðastliðna sex mánuði.
Myndin fjallar sem fyrr segir um þrjá unga drengi og er sérstök að því leytinu til að efnistök hennar eru afar dónaleg, svo dónaleg að leikarnir ungu mega ekki einu sinni horfa á hana án þess að vera í fylgd með forráðamönnum sínum því hún er bönnuð innan sextán ára.