Hjón sem grunuð voru um íkveikju á húðflúrstofu í Hafnarfirði í nóvember 2016 fá eina milljóna króna hvort í miskabætur frá íslenska ríkinu. Þau voru hvort um sig úrskurðuð í gæsluvarðhald við rannsókn málsins auk þess sem leitað var í fyrirtækjum og fasteignum í þeirra leigu.
Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður dæmt ríkið til að greiða þeim tvær milljónir króna á mann en bótakrafa þeirra hljóðaði upp á sex milljónir króna. Landsréttur lækkaði upphæðina í eina milljón króna á mann.
Fjórir voru handteknir vegna rannsóknar lögreglu á málinu eftir að tívolísprengja hafði verið sprengd við húðflúrstofuna Immortal Arts í Dalshrauni í Hafnarfirði aðfaranótt 1. nóvember árið 2016. Öll fjögur voru úrskurðuð í gæsluvarðhald í héraði en Hæstiréttur felldi síðar úrskurðinn úr gildi. Þau höfðu þá verið í varðhaldi í fjóra daga.
Í gæsluvarðhaldsúrskurðinum kom fram að lögreglan hefði kannað öryggismyndavélar nærri vettvangi brotsins. Þar mátti sjá tvo menn koma á mótorhjóli að húsnæðinu, kasta inn sprengju og aka á brott. Hæstiréttur sagði í dómi sínum að ekki væri hægt að þekkja þá einstaklinga sem þar áttu hlut í máli. Rökstuddur grunur um aðild fólksins lægi ekki fyrir.
Lögregla vísaði til nafnlausra vitna í kröfu sinni um gæsluvarðhald.
Hjónin voru handtekin af vopnuðum lögreglumönnum á heimili sínu árla morguns 3. nóvember árið 2016. Voru þau í gæsluvarðhaldi til 7. nóvember. Gerð var húsleit á heimili hjónanna þar sem síma- og tölvugögn voru skoðuð og munir í eigu hjónanna og barna haldlagðir.
Íslenska ríkið mótmælti ekki bótakröfunni sem slíkri en taldi hana of langt úr hófi. Karlinn fór fram á sex milljónir og konan sömuleiðis. Var það niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur að dæma bæði karlinum og konunni tvær milljónir í bætur en Landsréttur lækkaði bæturnar í eina milljón á mann.
Helminguðu miskabætur til hjóna sem grunuð voru um íkveikju
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar

Mest lesið





Engin röð á Læknavaktinni
Innlent



Ógeðslega stoltur af kennurum
Innlent


Kjarasamningur kennara í höfn
Innlent