Skoðun

Pála

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Ég var einsog villuráfandi sauður þegar ég kynntist Pálu. Ekki af neinum sjúkleikum heldur vegna þess að ég einblíndi á aukaatriðin og var gjörsamlega blindur á lífið sjálft. Ég var óhamingjusamur enda fannst mér ég ekkert kunna nema kannski að yrkja eftir hefðbundnum bragarháttum sem kom sér ekkert sérlega vel þar sem ég var að vinna í sumarskóla fyrir einhverf börn.

Samstarfsmennirnir voru orðnir þreyttir á mér þar sem ég átti það til að klæða Gunnar í sokkana hennar Gunnu, setti hlutina aldrei á sinn stað, drakk af djús sem var ekki minn og skráði allt rangt sem ég gleymdi ekki að skrá. En svo kom nýi yfirmaðurinn: Pála. Ekki leist mér á blikuna þegar hún sagðist ætla að fylgjast með okkur í viku og leggja svo línurnar. Mér fannst ég lítt gæfulegur til úttektar. Vikan var ekki liðin þegar hún kallaði mig á sinn fund.

Það sem gerðist á þessum fundi, og það sem í raun einkenndi allt hennar starf, var uppljómun fyrir mig sem markaði mig til lífstíðar. Hún taldi mér trú um að ég gæti reynst gæfa fyrir börnin sem ég var að vinna með. Það voru ekki aðeins orðin sem opnuðu manni nýja veröld heldur einnig krafturinn og kærleikurinn sem stafaði af þessum heiðbláu augum.

En svo flutti hún til Danmerkur og ég til Grikklands og ég sá hana aldrei meir. Tíminn leið og svo les ég andlátsfrétt sem fær mig til að pæla:

Páll var verkfæri sem gerði okkur kleift að rækta jörðina sem síðan greiddi götu okkar til siðmenningar. Pála var álíka vegsemd fyrir mig þar sem hún kenndi mér að yrkja á akri sálarinnar. Er þá of seint að segja takk?




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×