Viðskipti innlent

Í­treka að hækkun launa banka­stjórans sé í sam­ræmi við starfs­kjara­stefnu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans. Fréttablaðið/Eyþór
Bankaráð Landsbankans hefur svarað bréfi Bankasýslu ríkisins sem sent var bankanum í liðinni viku en þar var óskað eftir upplýsingum um sjónarmið ráðsins varðandi laun bankastjóra bankans.

Í svari bankaráðsins er það sjónarmið ítrekað sem fram kom í síðustu viku eftir að greint var frá launhækkunum Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra, að ákvarðanir um launakjör hennar væru í samræmi við starfskjarastefnu bankans.

Sjá einnig:Laun bankastjórans hækkað um 82 prósent

Bankaráðið vísar í eigendastefnu ríkisins um fjármálafyrirtæki í svari sínu þar sem kveðið er á um eftirfarandi meginreglu:

„Félagið skal setja sér starfskjarastefnu sem er samkeppnishæf, en hófleg og ekki leiðandi.“

Þá er á það bent að á árunum 2009 til 2017 hafi laun bankastjórans ekki verið samkeppnishæf að mati bankaráðsins en á þessum árum heyrðu kjör bankastjóra Landsbankans undir kjararáð.

Þetta hafi bankaráðið ítrekað bent á þar sem það hafi talið að launakjörin hafi ekki verið í samræmi við starfskjarastefnu, það er sambærileg við aðra æðstu stjórnendur í bankakerfinu en þó ekki leiðandi.

Í svari bankaráðsins til Bankasýslunnar er það rakið hvernig ákvörðun um launakjör Lilju Bjarkar var tekin en hún var ráðin til starfa sem bankastjóri í janúar 2017. Í frétt á vef bankans um svar bankaráðsins segir:

„Við mat bankaráðs á hver laun nýs bankastjóra ættu að vera var m.a. aflað gagna frá óháðum ráðgjafarfyrirtækjum um laun stjórnenda annarra fjármálafyrirtækja og forstjóra stórra fyrirtækja á Íslandi og óskað álits á hver samkeppnishæf laun væru.

Niðurstöður þeirra voru m.a. að eðlilegt væri að launin væru á bilinu 3,5-4,9 milljónir króna á mánuði. Í kjölfarið var samið um að laun bankastjóra yrðu 3,25 milljónir króna frá og með 1. júlí 2017. Í ráðningarsamningnum kemur fram að það sé stefna bankaráðs að greiða bankastjóra samkeppnishæf laun.

Launin voru síðan endurskoðuð í samræmi við ákvæði samningsins og starfskjarastefnunnar frá og með 1. apríl 2018. Heildarlaun bankastjóra nema nú 3,8 milljónum króna á mánuði. Eftir hækkunina eru laun bankastjóra Landsbankans umtalsvert lægri en laun bankastjóra hinna stóru bankanna tveggja.“

Svar bankráðsins til Bankasýslunnar má nálgast hér.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×