Erlent

Sextán ríki kæra neyðarástand Trump

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Neyðarástandi Bandaríkjaforseta var mótmælt í Los Angeles í gær.
Neyðarástandi Bandaríkjaforseta var mótmælt í Los Angeles í gær. Getty/Robyn Beck
Sextán ríki Bandaríkjanna, með Kalíforníu í broddi fylkingar, hafa ákveðið að fara í mál við Donald Trump, forseta landsins, vegna ákvörðunar hans um að lýsa yfir neyðarástandi.

Eftir að ljóst var að forsetinn myndi ekki fá það fjármagn sem hann hafði krafist frá þinginu til að reisa múr eða girðingu á landamærunum við Mexíkó nýtti hann sér ákvæði í lögum sem gerir honum kleift að sækja fjármagn í tilfell neyðarástands. Afar umdeilt er hvort að lögin eigi við um í þessu tilfelli og segja Demókratar að ákvörðunin sé brot á stjórnarskrá Bandaríkjanna

Dómsmálaráðherra Kalíforníu segir að ríkin sextán hafi ákveðið að fara í mál til þess að koma í veg fyrir að forsetinn misbeiti valdi sínu meira en orðið er.

Hann segir að Trump sé með þessu að ræna íbúa ríkjanna skattpeningum sem þingmenn hafi sett til hliðar og séu ætlaðir ríkjunum öllum. Þá bætti hann við að forsetaembættið sé ekki leikhús. Með því að fara í mál vonast ríkin til að dómari setji lögbann á færslu fjármunanna, uns dómstólar komast að niðurstöðu um réttmæti hugmyndar forsetans.

Líklegt þykir að ef fulltrúadeild Bandaríkjaþings muni ekki samþykkja neyðarástandstilskipun Trump muni hann beita neitunarvaldi sínu. Það yrði í fyrsta sinn frá því að hann tók við embætti árið 2017 sem hann myndi beita neitunarvaldinu.


Tengdar fréttir

Trump ekki skemmt eftir nýjasta atriði SNL

Svo virðist sem að Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, hafi ekki skemmt sér yfir nýjasta opnunaratriði bandaríska grínþáttarins Saturday Night Live sem sýndur var á laugardaginn.

Demókratar ætla að standa í vegi fyrir Trump

Ákvörðun Donald Trump, Bandaríkjaforseta, um að lýsa yfir neyðarástandi á landamærunum við Mexíkó hefur fallið í grýttan jarðveg hjá demókrataflokknum. Þingmenn leita nú leiða til að stöðva Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×