Erlent

Búast ekki við að nokkur hafi lifað af á eyjunni

Samúel Karl Ólason skrifar
Skemmd þyrla á Whakaari.
Skemmd þyrla á Whakaari. EPA/MICHAEL SCHADE

Lögreglan á Nýja Sjálandi býst ekki við því að nokkur sem hafi orðið eftir á eldfjallaeyjunni Whakaari, eða „Hvítu eyju“, hafi lifað af. Talið er að allt að 50 manns hafi verið á eyjunni þegar eldgos hófst þar í nótt. 23 var bjargað þaðan og því þykir líklegt að allt að 27 séu látnir, til viðbótar við þá fimm sem búið er að staðfesta að hafi dáið.

Gosið hófst um tvöleytið í dag að nýsjálenskum tíma, eða um klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma. Flestir, ef ekki allir, sem voru á eyjunni voru af skemmtiferðaskipinu Ovation of the Seas.

Þyrlum hefur verið flogið yfir og við eyjuna en í yfirlýsingu frá lögreglunni segir að engin ummerki lífs hafi sést. Þegar birtir verður notast við dróna og annars konar eftirlitsbúnað til að kanna eyjuna.



Nú er unnið að því að sannreyna hve margir voru þar í rauninni. Búið er að staðfesta að fimm hafi dáið en líkum þeirra var komið af eyjunni. Hinir átján slösuðust.

New Zealand Herald segir íbúa velta vöngum yfir því af hverju ferðamönnum hafi yfir höfuð verið hleypt á Whakaari, eftir að viðbúnaðarstig vegna mögulegs eldgoss var nýverið aukið. Það var gert í kjölfar aukinnar jarðvirkni á svæðinu og aukins brennisteins í andrúmsloftinu við eyjuna.



Það er þó ferðaþjónustuaðila að ákveða hvort ferðamenn megi fara í land.

Jarðfræðingur sem NZH ræddi við segir eldgos af þessu tagi gerast nánast samstundis og því sé ólíklegt að ferðamenn á eyjunni hafi fengið mikinn fyrirvara og þar með tækifæri til að koma sér af Whakaari.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×