Erlent

Ummerki um að Anne-Elisabeth hafi verið dregin út af baðherberginu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ekkert er vitað hvar Anne-Elisabeth Hagen er niðurkomin eða hvort hún er á lífi.
Ekkert er vitað hvar Anne-Elisabeth Hagen er niðurkomin eða hvort hún er á lífi. Mynd/Norska lögreglan
Lögregla í Noregi fann ummerki um að Anne-Elisabeth Hagen, ein ríkasta kona Noregs, hafi verið dregin út af baðherbergi á heimili sínu daginn sem hún hvarf. Ekki hefur verið greint áður frá þessum vísbendingum í tengslum við hvarfið en norska dagblaðið Verdens gang fjallaði fyrst um málið í kvöld.

Anne-Elisabeth er gift milljarðamæringnum Tom Hagen. Talið er að henni hafi verið rænt af heimili þeirra hjóna þann 31. október síðastliðinn en ekkert hefur spurst til hennar síðan. Meintir mannræningjar hafa sett sig í samband við fjölskylduna og krafist milljóna í lausnargjald í rafmyntinni Monero.

Sjá einnig: Þrír mánuðir frá því að Anne-Elisabeth var rænt en lögreglan engu nær

Lögregla hefur hingað til gengið út frá því að ráðist hafi verið á Anne-Elisabeth inni á baðherbergi í húsinu. Kenningin er sögð byggð á ummerkjum sem fundust við baðherbergið en förin benda til þess að Anne-Elisabeth hafi verið dregin eftir gólfinu og út. Að öðru leyti hafa ekki fundist merki um átök í húsinu.

Ekki hefur verið greint áður frá áðurnefndum ummerkjum í fjölmiðlum en í frétt VG kemur þó fram að lögregla hafi haft þau lengi til rannsóknar. Eiginmaður Anne-Elisabeth hafi bent lögreglu á förin strax eftir að hann tilkynnti um hvarf eiginkonu sinnar.

Lögregla hefur annars haft úr litlu að moða í tengslum við hvarf Anne-Elisabeth. Nú, næstum fjórum mánuðum eftir að hún hvarf, eru yfirvöld engu nær um það hvar hún er niðurkomin eða hvað kom nákvæmlega fyrir hana. Þannig er ekki vitað hvort að mannræningjarnir, sem hafa sett sig í samband við fjölskyldu Anne-Elisabeth, hafi farið með hana úr landi. Þá er heldur ekki vitað hvort Anne-Elisabeth sé yfir höfuð á lífi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×