Innlent

Síðasti ríkisstjórnarfundur Sigríðar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigríður Á. Andersen, fráfarandi dómsmálaráðherra, kemur til síns síðasta ríkisstjórnarfundar nú í morgun.
Sigríður Á. Andersen, fráfarandi dómsmálaráðherra, kemur til síns síðasta ríkisstjórnarfundar nú í morgun. vísir/vilhelm

Ríkisstjórnarfundur hófst í Stjórnarráðshúsinu núna klukkan níu en um er að ræða síðasta ríkisstjórnarfund Sigríðar Á. Andersen, að minnsta kosti í bili.

Nýr dómsmálaráðherra tekur við embætti á ríkisráðsfundi á Bessastöðum klukkan 16 í dag eftir að Sigríður sagði af sér í gær í kjölfar Landsréttardóms Mannréttindadómstóls Evrópu.

Sagði Sigríður að hún hefði ákveðið að stíga til hliðar svo það myndi skapast vinnufriður um málefni Landsréttar.

Ljóst er að stjórnvöld þurfa að grípa til aðgerða vegna dóms Mannréttindadómstólsins sem komst að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið staðið löglega að skipan dómara við réttinn.

Vegna þessa er nú uppi réttaróvissa í landinu þar sem öllum málum sem liggja fyrir Landsrétti hefur verið frestað út þessa viku að minnsta kosti.

Ekki liggur fyrir hver tekur við dómsmálaráðuneytinu en Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í gær að tveir kostir kæmu til greina í þeim efnum, annars vegar að nýr ráðherra yrði skipaður úr þingflokki Sjálfstæðismanna eða að málefni dómsmálaráðuneytisins færu undir annan ráðherra í ríkisstjórn.

Frá ríkisstjórnarfundinum í morgun.Vísir/Vilhelm.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×