Íslands- og bikarmeistarar Breiðabliks rústuðu Dragon frá Norður-Makedóníu, 11-0, í öðrum leik sínum í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í morgun. Leikið er í Sarajevó.
Blikar hafa unnið báða leiki sína í riðlinum með markatölunni 15-1. Á miðvikudaginn vann Breiðablik Tel Aviv, 4-1.
Breiðablik mætir Sarajevó í lokaumferð riðlakeppninnar á þriðjudaginn og verður það væntanlega úrslitaleikur um hvort liðið kemst í 32-liða úrslit Meistaradeildarinnar.
Breiðablik var með gríðarlega mikla yfirburði í leiknum í dag eins og lokatölurnar gefa til kynna. Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir braut ísinn strax á 6. mínútu þegar hún kom Blikum yfir.
Hildur Antonsdóttir bætti öðru marki við á 25. mínútu og þremur mínútum síðar skoraði Berglind Björg Þorvaldsdóttir úr vítaspyrnu. Selma Sól Magnúsdóttir skoraði svo fjórða mark Breiðabliks á lokamínútu fyrri hálfleiks.
Berglind Björg skoraði fimmta mark Blika á 51. mínútu og Hildur það sjötta á 63. mínútu. Aðeins mínútu síðar skoraði Berglind Björg þriðja mark sitt og sjöunda mark Breiðabliks.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði áttunda markið á 69. mínútu og á síðustu átta mínútunum komu þrjú mörk. Berglind Björg skoraði sitt fjórða mark á 82. mínútu, Alexandra Jóhannsdóttir tíunda mark Blika á 85. mínútu og Selma Sól það ellefta tveimur mínútum síðar. Lokatölur 11-0, Breiðabliki í vil.
