Embættismenn bandarísku utanríkisþjónustunnar sem hafa borið vitni í rannsókn fulltrúadeildarinnar hafa lýst ófrægingarherferð sem þeir töldu stýrt af Rudy Giuliani, persónulegum lögmanni Trump, og tveimur samverkamönnum hans sem nú hafa verið handteknir vegna gruns um ólögleg kosningaframlög.
George Kent, yfirmaður Úkraínumála hjá utanríkisráðuneytinu, bar vitni á miðvikudag um að Giuliani og félagar hafi unnið með spilltum úkraínskum fyrrverandi saksóknurum sem vildu ná sér niðri á Yovanovitch sem tók þátt í að úthýsa þeim vegna spillingar.
Giuliani og félagar sökuðu Yovanovitch um að vera á móti Trump og grafa undan honum í störfum sínum. Engar sannanir hafa verið lagðar fram fyrir þeim ásökunum.
Trump kallaði Yovanovitch skyndilega heim í maí en þá hafði hún nýlega verið fengin til að sitja áfram sem sendiherra í Kænugarði. Í minnisblaði sem Hvíta húsið birti sjálft um umdeilt símtal Trump og Volodomýrs Zelenskíj, forseta Úkraínu, sem átti sér stað í júlí mátti lesa að Trump kallaði Yovanovitch „slæmar fréttir“ og að hún ætti eftir að „lenda í ýmsu“.
Rannsókn þingsins á Trump beinist að því hvort hann hafi misnotað vald sitt sem forseti þegar hann og nokkrir bandamenn hans beittu úkraínsk stjórnvöld þrýstingi til að rannsaka pólitíska keppinauta hans og stoðlausa samsæriskenningu um bandarísku forsetakosningarnar árið 2016, meðal annars með því að skilyrða hundruð milljóna dollara hernaðaraðstoð og fund í Hvíta húsinu við slíkar rannsóknir.
Í spilaranum hér fyrir neðan er hægt að fylgjast með framburði Yovanovitch í beinni útsendingu frá klukkan 14:00 að íslenskum tíma.
Var sagt að Giuliani ynni með saksóknara gegn sér
Yovanovitch hefur starfað innan bandarísku utanríkisþjónustunnar í 33 ár. Þegar hún bar fyrst vitni í rannsókninni fyrir luktum dyrum í október sagði hún að henni hefði verið tjáð að ákvörðunin um að afturkalla hana hefði komið frá Trump forseta og ef utanríkisráðuneytið hefði ekki skipað henni að snúa heim hefði forsetinn mögulega tíst gegn henni. Þá var henni sagt að hún hefði ekki gert neitt rangt en að Trump forseti hefði „misst traust“ til hennar.Meðferðin á Yovanovitch fór svo fyrir brjóstið á Michael McKinley, aðalráðgjafa Mike Pompeo utanríkisráðherra, að hann sagði af sér. Hann sagði þingnefndunum að hann hafi talið ófrægingarherferðina gegn sendiherranum óásættanlega.
Orð Trump forseta við Zelenskíj Úkraínuforseta um að Yovanovitch ætti eftir að „lenda í ýmsu“ olli sendiherranum hugarangri. Hún sagði þingnefndunum að hún hafi talið sér ógnað með þeim orðum og að hún gerði það enn.
Varðandi ófrægingarherferðina gegn sér sagðist Yovanovitch fyrst hafa orðið þess vör að eitthvað væri á seyði síða árs í fyrra. Þá höfðu úkraínskir embættismenn varað hana við að Giuliani og Júrí Lútsenkó, þáverandi ríkissaksóknari Úkraínu, legðu saman á ráðin um að koma á hana höggi. Bandaríska sendiráðið hafði þá verið gagnrýnið á störf Lútsenkó gegn spillingu.
Sagðist Yovanovitch telja að ráðabrugg Giuliani og Lútsenkó stangaðist á við stefnu Bandaríkjastjórnar um að uppræta spillingu í Úkraínu.
Á meðan á ófrægingarherferðinni gegn Yovanovitch stóð ráðlagði Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Evrópusambandinu sem Trump hafði falið að stýra samskiptum við Úkraínu ásamt öðrum, henni að lofa forsetann á Twitter og fullyrða að ásakanir um óhollustu á hendur henni væru rangar. Það taldi Yovanovitch sig ekki geta gert stöðu sinnar vegna.
Sagði allt hafa hangið á rannsóknunum sem Trump krafðist
Fyrstu opinberu vitnaleiðslurnar í rannsókn þingsins fóru fram á miðvikudag. Þá bar auk Kent, aðstoðarvarautanríkisráðherra, vitni William Taylor, starfandi sendiherra Bandaríkjanna í Kænugarði, sem tók við af Yovanovitch.Taylor sagðist hafa haft efasemdir um að taka við embættinu í ljósi þess sem hafi komið fyrir Yovanovitch en hann hafi engu að síður þegið það.
Lýsti Taylor því hvernig Giuliani, Sondland og Kurt Volker, þáverandi sendifulltrúi Bandaríkjanna vegna átakanna í Austur-Evrópu, hafi þrýst á úkraínska embættismenn að Zelenskíj forseti tilkynnti opinberlega um rannsóknir sem Trump sóttist eftir á pólitískum andstæðingum sínum.
Bæði tæplega 400 milljóna dollara hernaðaraðstoð sem Bandaríkjaþing hafði samþykkt og fundur í Hvíta húsinu sem úkraínsk stjórnvöld sóttust eftir hafi verið skilyrtur við að Zelenskíj tilkynnti opinberlega um rannsóknirnar. Af því varð þó ekki því upplýst var um að hernaðaraðstoðin hefði verið stöðvuð rétt áður en Zelenskíj ætlaði að segja frá rannsóknunum í viðtali við CNN-fréttastöðina í september. Þá höfðu bandarískir þingmenn verið byrjaðir að spyrjast fyrir um hvað aðstoðinni liði.