Innlent

Ása Ólafsdóttir talin hæfust í Landsrétt

Sylvía Hall skrifar
Það er mat dómnefndar um hæfni umsækjenda um embætti dómara að Ása Ólafsdóttir sé hæfust umsækjenda.
Það er mat dómnefndar um hæfni umsækjenda um embætti dómara að Ása Ólafsdóttir sé hæfust umsækjenda. Vísir/Einar

Dómnefnd um hæfni umsækjanda um embætti dómara hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ása Ólafsdóttir, prófessor og forseti Lagadeildar Háskóla Íslands, sé hæfust umsækjenda um dómarastöðu við Landsrétt. Tvö embætti eru laus við réttinn og voru þau auglýst til umsóknar þann 20. desember síðastliðinn.

Átta sóttu um embættin en einn umsækjandi dró umsókn sína til baka. Við mat á hæfni umsækjenda var litið til menntunar, starfsferils og fræðilegrar þekkingu, aukastarfa og félagsstarfa, almennrar starfshæfni, sérstakrar starfshæfni og andlegs atgervis umsækjenda.

Þá er það niðurstaða nefndarinnar að næst komi þau Ástráður Haraldsson og Sandra Baldvinsdóttir en þau starfa bæði sem héraðsdómarar. Þetta er í þriðja sinn sem Ástráður sækir um við réttinn.

Sjá einnig: Telur það ekki standast að Lands­réttar­dómarar geti sótt um lausa stöðu við réttinn

„Þrjú þeirra standa þó öðrum framar, Ása Ólafsdóttir, sem nefndin telur hæfasta, en næst henni koma jafnsett Ástráður Haraldsson og Sandra Baldvinsdóttir. Öll búa þau að yfirgripsmikilli þekkingu á ýmsum sviðum lögfræði, auk fjölbreyttrar reynslu af störfum í lögmennsku, stjórnsýslu og við dómstóla,“ segir í umsögn nefndarinnar.

Ástráður er einn þeirra sem metinn var hæfastur af hæfnisnefnd þegar Landsrétti var komið á fót en Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, hafði hann hins vegar ekki inni á lista yfir þá dómara sem að lokum voru settir í embætti.

Voru honum dæmdar 700 þúsund krónur í miskabætur eftir að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherra hefði brotið lög með endurröðun lista yfir hæfustu umsækjendur.

Ástráður sótti þá aftur um stöðu dómara við réttinn í maí á síðasta ári þegar Vilhjálmur H. Vilhjálmsson sagði starfi sínu lausu. Eiríkur Jónsson, fyrrverandi forseti Lagadeildar, var fékk stöðuna í það skiptið en hann hafði einnig sótt um áður.

Eftirfarandi sóttu um embættin:

Ása Ólafsdóttir, prófessor

Ástráður Haraldsson, héraðsdómari

Bogi Hjálmtýsson, héraðsdómari

Hildur Briem, héraðsdómari

Ingibjörg Þorsteinsdóttir, héraðsdómari

Ragnheiður Snorradóttir, héraðsdómari

Sandra Baldvinsdóttir, héraðsdómari

Dómnefndina skipuðu: Ingimundur Einarsson, formaður, Óskar Sigurðsson, Ragnheiður Harðardóttir, Ragnhildur Helgadóttir og Reimar Pétursson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×