Lífið

Júlía er fundin en nú hefst leitin að Rómeó

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ebba Katrín mun fara með hlutverk Júlíu.
Ebba Katrín mun fara með hlutverk Júlíu. vísir/sylvía/vilhelm

Þjóðleikhúsið undirbýr nú uppsetningu á Rómeó og Júlíu eftir William Shakespeare í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar. Sýningin verður frumsýnd í byrjun mars 2021.

Nú er vinna hafinn að manna sýninguna en hópur listrænna stjórnenda hefur verið ráðinn að verkefninu við hlið Þorleifs Arnars. Júlía er nú þegar fundin en leitin að Rómeó að hefjast.

Þegar þessi vinsælasta og rómaðasta ástarsaga allra tíma fer á svið ríkir jafnan mest eftirvænting eftir því hverjir veljist í hin eftirsóttu hlutverk elskendanna, Rómeós og Júlíu.

Ebba Katrín Finnsdóttir mun fara með hlutverk Júlíu. Hins vegar leitar leikhúsið að þeim eina rétta í hlutverk Rómeós.

Kallað verður eftir umsóknum frá leikurum á aldrinum 20-30 ára sem hafa áhuga á að komast í prufu fyrir hlutverkið.

Þorleifur Örn Arnarsson hefur verið í hópi fremstu leikstjóra Íslendinga um árabil. Hann leikstýrði mörgum rómuðustu sýningum síðustu ára hér á landi, eins og Englum alheimsins og Njálu. Þá hefur hann notið mikillar velgengni í Evrópu og undanfarið verið einn stjórnenda hins virta leikhúss Volksbühne í Berlín. Nú í febrúar var tilkynnt um að Þorleifur gengi til liðs við Þjóðleikhúsið sem samningsbundinn leikstjóri og mun hann leikstýra einni sýningu árlega við húsið á næstu árum. Við hlið Þorleifs mun starfa hópur listrænna stjórnenda. Ilmur Stefánsdóttir mun hanna leikmynd og Björn Bergsteinn Guðmundsson verður ljósahönnuður. Þá hefur Kristján Ingimarsson verið ráðinn til sjá um kóreógrafíu í sýningunni.

Ebba Katrín Finnsdóttir hefur vakið athygli síðan hún útskrifaðist úr leiklistardeild Listaháskóla Íslands fyrir tveimur árum.

Leikprufur - leitin að Rómeó

- Leikarar á aldrinum 20-30 ára sem hafa lokið námi í leiklist eða starfað við atvinnuleiklist koma til greina.

Umsóknarfrestur rennur út á miðnætti 12. maí.

- Leikstjóri og listrænir stjórnendur velja ákveðinn hóp sem verður boðið að koma í prufur fyrir hlutverkið. Þar gefst þeim tækifæri til að leika tvær stuttar senur úr verkinu á móti Ebbu og öðrum leikurum undir leikstjórn Þorleifs á Stóra sviðinu. Prufurnar fara fram nú í maí.

- Framhaldsprufur verða boðaðar fyrir þrengri hóp í kjölfarið.

- Þegar valið hefur farið fram verður einum leikara boðið hlutverk Rómeós. Ráðningarkjör eru venju samkvæmt í samræmi við gildandi kjarasamning FÍL við Þjóðleikhúsið.

Hér er hægt að sækja um prufu fyrir hlutverk Rómeó.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×