Breska íþróttavöruverslunarkeðjan JJB Sports mun fara í greiðslustöðvun í dag ef henni tekst ekki að tryggja sér samþykki 75% leigusala sinna við breytingar á húsaleigusamningum verslanna keðjunnar.
Breytingarnar miða að því að leigusalarnir gefi eftir samninga sína við 140 verslanir sem þegar eru lokaðar og breyti frá árssamningum yfir í mánaðarsamninga á hjá þeim verslunum sem enn eru opnar.
Í morgun voru þessi mál ekki í höfn að sögn The Times og ef málið nær ekki farsælli lendingu í dag munu lánadrottnar JJB Sports, bankarnir Kaupþing, Barclays og Lloyds yfirtaka reksturinn. Sem stendur vinna um 12.000 manns í 410 verslunum á vegum JJB Sports.
Stórir leigusalar, á borð við Hammerson og Prudential hafa lýst vilja sínum að fara að óskum JJB Sports í málinu.
Peter Williams forstjóri JJB Sports er hæfilega bjartsýnn á að málið leysist í dag og segir í samtali við The Times að viðbrögð leigusalanna hafi verið á jákvæðum nótum.