Skoðun

Börn eiga rétt á að þekkja uppruna sinn

Silja Dögg Gunnarsdóttir skrifar

Á Íslandi eiga börn sem getin eru með tæknifrjóvgun og kynfrumugjöf ekki sjálfstæðan rétt á upplýsingum um uppruna sinn. Ísland er eina landið á Norðurlöndunum sem hefur ekki tryggt réttindi barna að þessu leyti. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kveður á um réttindi barns til að vera skráð eftir fæðingu, fá nafn, ríkisfang og við vita um foreldra sína og njóta umönnunar þeirra.

Undirrituð hefur nú  í sjötta sinn lagt fram tillögu um rétt barna til að vita um uppruna sinn og falið dómsmálaráðherra að tryggja réttindi barna að þessu leyti. Tillagan hefur ekki enn verið afgreidd á Alþingi. Við viljum vera í fremstu röð hvað varðar réttindi barna. Sýnum það í verki. Það er löngu orðið tímabært að innleiða ný lög sem tryggja þennan rétt barna.

Umsögn Umboðsmanns barna

Lög um tæknifrjóvgun, sem tóku í gildi 15. maí 1996, gera ráð fyrir að sá sem gefur kynfrumur til tæknifrjóvgunar skuli njóta nafnleyndar. Nafnleynd kynfrumugjafa vegur þyngra en réttindi barna til að fá að vita um uppruna sinn. Umboðsmaður barna sendi frá sér umsögn árið 1996, þegar frumvarpið var til umfjöllunar hjá Alþingi. Í henni kom fram sú afdráttarlausa skoðun að barn sem getið er með gjafakynfrumu ætti að fá rétt á að vita um uppruna sinn, eftir því sem unnt er. Þannig verði velferð þess best tryggð til framtíðar.

Reynsla nágrannaríkja

Helstu rökin fyrir nafnleynd kynfrumugjafa hafa verið sú að nafnleynd tryggi framboð á kynfrumum. Reynsla nágrannaríkjanna sýnir að slíkt hafi ekki veri raunin en eins og fyrr segir þá hafa öll Norðurlöndin, utan Íslands, nú þegar tryggt lagalegan rétt barna til að þekkja uppruna sinn. Reyndar dróst kynfrumugjöf í Svíþjóð saman eftir að lögunum var breytt á þann veg að börn ættu rétt á að þekkja uppruna sinn, en fór síðan aftur í sama horf.

Mikilvægt er að virða friðhelgi fólks og þörfin fyrir að nálgast upplýsingar um líffræðilegan uppruna, getur verið mjög mismunandi. Því yrðu slíkar upplýsingar aðeins veittar ef „barnið“ óskar sjálft eftir þeim. Rétturinn ætti ávallt að vera barnsins. 

Höfundur er þingmaður Framsóknar.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×