Þeir liðsmenn hryðjuverkasamtakanna ISIS sem enn eru í íröksku borginni Mosúl, munu deyja þar. Þetta segir yfirmaður í bandaríska hernum sem skipuleggur nú lokasóknina til að frelsa borgina úr höndum ISIS.
Brett McGurk er háttsettasti bandaríski hermaðurinn sem kemur að aðgerðunum í Mosúl en það eru hermenn úr írakska hernum auk liðsveita Kúrda sem fara þar fremstir í flokki.
Bandaríkjamenn veita hins vegar aðstoð úr lofti auk þess sem þeir veita ráðgjöf í bardögum á jörðu niðri.
Sveitir ISIS hafa haft Mosul, sem er næststærsta borg Íraks, á sínu valdi allt frá árinu 2014 þegar þeir tóku hana án mikillar fyrirhafnar.
Allur austurhluti hennar hefur nú verið frelsaður og stór hverfi í vesturhlutanum sömuleiðis, meðal annars helstu stjórnarbyggingar og Mosúl-safnið.
Hart var barist í borginni um helgina og segir McGurk að í gærkvöldi hafi síðustu leiðinni út úr Mosul verið lokað af írakska hernum.
Það þýðir að hans sögn að þeir ISIS-liðar sem enn séu eftir í borginni muni deyja þar þar sem ekki standi til að leyfa þeim að komast undan.
Óttast er um almenna borgara í Mosul en talið er að allt að 600 þúsund manns hafist við í hverfunum sem ISIS hefur enn á valdi sínu.

