Innlent

Bono gerði víðreist um Ísland

Kristján Hjálmarsson skrifar
Bono fór víða á þeim stutta tíma sem hann dvaldist hér á landi.
Bono fór víða á þeim stutta tíma sem hann dvaldist hér á landi. Kort/Garðar
Írski tónlistarmaðurinn Bono, söngvari U2, flaug af landi brott á einkaþotu sinni í gærkvöldi. Bono eyddi tveimur sólarhringum hér á landi í faðmi fjölskyldu sinnar og vina og naut sín vel, samkvæmt heimildum Vísis.

Eins og fram kom á Vísi í gær bankaði Bono meðal annars upp á hjá Ólafi Stefánssyni handboltakappa og fékk að kíkja í alvöru íslenska nýársgleði á Sjafnargötunni. Þá kíkti hann einnig í annað heimahús í Þingholtunum.

Fyrr um kvöldið hafði Bono gætt sér á kvöldverði á veitingastaðnum Dill í Norræna húsinu. Því næst lá leið hans upp á Skólavörðuholt þar sem hann fylgdist með Íslendingum fagna nýju ári með flugeldum.

Bono og fjölskylda sváfu þó ekki frameftir eftir áramótagleðina því í gær fóru þau í þyrluferð um Ísland og skoðuðu sig meðal annars um á Þingvöllum, Hengilssvæðinu, Eyjafjallajökli, í Þórsmörk og á Suðurnesjum. Ferðin endaði svo í Bláa lóninu þar sem sem dekrað var við Bono og fjölskyldu. Samkvæmt heimildum Vísis var írski söngvarinn yfir sig hrifinn af lóninu og þjónustunni þar.

Seinna um kvöldið fór Bono svo á Hamborgarabúlluna við Geirsgötu. Fjölskyldan kvaddi svo land og þjóð í gær og flaug í einkaþotu frá Reykjavíkurflugvelli til Dublinar, þar sem fjölskyldan býr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×