Erlent

Banksy hyllir heilbrigðisstarfsfólk

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Myndin góða.
Myndin góða. Mynd/Banksy

Nýtt listaverk eftir breska götulistamanninn Banksy hefur dúkkað upp á spítalanum í Southampton í Bretlandi. Listaverkið hyllir heilbrigðisstarfsmenn á sama tíma og þeir eru í framlínunni í baráttunni gegn kórónuveirufaraldrinum.

Listaverkið ber nafnð Game Changer og á því má sjá lítinn dreng leika sér með leikfangahjúkrunarfræðing. Í ruslinu við hlið drengsins eru hefðbundnari ofurhetjur á borð við Leðurblökumanninn og Köngulóarmanninn. Verkið gefur til kynna að heilbrigðisstarfsfólk séu hinar nýju ofurhetjur, enda stendur það í ströngu þessa dagana víða um heim.

„Takk fyrir allt sem þið eru að gera. Ég vona að þetta lýsi upp spítalann, jafn vel þó að myndin sé svarthvít,“ stóð í bréfi frá Banksy sem fylgdi myndinni.

Myndin mun hanga uppi í spítalanum í einhverja daga eða vikur áður en það verður boðið upp, ágóðinn mun renna til bresku heilbrigðisstofnunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×