Viðskipti innlent

Stefnt að því að gefa QuizUp út á Android í janúar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Þorsteinn Baldur Friðriksson, framkvæmdastjóra og stofnandi Plain Vanilla.
Þorsteinn Baldur Friðriksson, framkvæmdastjóra og stofnandi Plain Vanilla. mynd / valli
Smáforritafyrirtækið Plain Vanilla vinnur nú hörðum höndum að því að koma QuizUp leiknum út fyrir tæki með Android stýrikerfi en hingað til hefur aðeins verið hægt að spila spurningaleikinn á tæki frá Apple.

QuizUp hefur slegið rækilega í gegn að undanförnu en um 100.000 manns hala niður leiknum á degi hverjum en hann kom út í nóvember.

QuizUp hefur verið einn vinsælasti smáleikurinn í heiminum síðustu vikur en um sjö milljón manns hafa sótt leikinn frá útgáfu.

„Núna erum við á fullu í prufunum á Android útgáfunni enda viljum við vera viss um að leikurinn virki vel,“ segir Þorsteinn Baldur Friðriksson, framkvæmdastjóra og stofnandi tölvuleikjaframleiðandans Plain Vanilla.

„Við gerum ráð fyrir því að gefa leikinn út í þessu formi í janúar sem verður stórt stökk fyrir fyrirtækið. Android-stýrikerfið er töluvert öðruvísi en það kerfi sem er í Apple vörum og huga þarf að mörgum hlutum þegar verið er að aðlaga leikinn að kerfinu. Forritarar okkar þurfa að gera ráð fyrir mun fleiri símtækjum og spjaldtölvum sem eru mörg hver mjög ólík. Það þarf til að mynda að gera ráð fyrir mismunandi skjástærðum og örðu slíku þegar kemur að Android.“

„Það hefur ekki verið mikið vandamál að fá fólk til að prófa þessa tilraunarútgáfu af QuizUp og finnum við greinilega fyrir því að eftirvæntingin er mikil fyrir því að fá leikinn á Android.“

Hingað til hefur fyrirtækið Plain Vanilla einblínt á Apple markaðinn og er nú aðeins hægt að spila leikinn í iPhone og iPad frá Apple.

„Þegar leikurinn kemur út á Android verður hann aðgengilegur fyrir nánast alla sem eiga snjalltæki. Í fljótu bragði myndi ég giska á að 70% af markaðnum séu með tæki með Android stýrikerfinu.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×