Lífið

Beikonið yfirtekur borgina

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Árni Georgsson, í bleika bolnum, er einn af stofnendum Reykjavík Bacon Festival ásamt fleiri beilonunnendum.
Árni Georgsson, í bleika bolnum, er einn af stofnendum Reykjavík Bacon Festival ásamt fleiri beilonunnendum. Vísir/Daníel
„Beikonið mun flæða niður Skólavörðustíginn og ég lofa góðu stuði og góðum mat,“ segir Árni Georgsson, einn af stofnendum hátíðarinnar Reykjavík Bacon Festival, sem haldin verður hátíðleg fjórða árið í röð á Skólavörðustíg í dag.

Um er að ræða mikla matarhátíð undir yfirskriftinni Matarhátíð alþýðunnar en fjölmargir veitingastaðir munu selja beikoninnblásna rétti í matartjöldum víðs vegar á Skólavörðustígnum. Ágóði af hátíðinni rennur til Umhyggju, styrktarfélags langveikra barna.

Árni er mikill beikonáhugamaður og reykir sitt eigið beikon. „Ég hef reykt mitt eigið beikon á Svínanesi í Svínahlíð í Grafningnum í Þingvallasveit og er þar með reykskúr við sumarbústaðinn. Ég hef mjög gaman af svínum og í raun öllum dýrum,“ segir Árni.

Árnir Georgsson
Spurður út í hvort neysla á beikoni sé óholl segir Árni hófsemi skipta miklu máli. „Í beikoni eru næringarefni sem þú þarft en eins og með allt annað þá þarf að gæta hófs í neyslunni. Þetta snýst um að neyta þess á ábyrgan hátt. Það er einhver ástæða fyrir því að svín hafa fylgt okkur þetta lengi,“ segir Árni.

Reykjavík Bacon Festival er systurhátíð Blue Ribbon Bacon, stærstu beikonhátíðar í heimi, sem haldin er ár hvert í Des Moines í Iowa. „Það eru tveir Bandaríkjamenn sem eru komnir til okkar, Brooks Reynolds og Marshall Porter, þeir eru goðsagnir í beikonheiminum og halda stærstu beikonhátíð í heimi. Þeir eru að koma hingað fjórða árið í röð og kunna vel við sig,“ bætir Árni við.

Hátíðin er haldin af nokkrum vinum og er skipulagningin öll unnin í sjálfboðavinnu og munu 60 sjálfboðaliðar frá Veraldarvinum hjálpa til á hátíðinni ásamt fleirum.

Leiktæki, beikon og skemmtiatriði verða í boði fyrir alla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.