Lífið

Sótti um vinnu á Smartlandi í bundnu máli

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Arnar Snæberg og auglýsingin sem kveikti áhuga hans.
Arnar Snæberg og auglýsingin sem kveikti áhuga hans. Mynd/Arnar Snæberg
Arnar Snæberg Jónsson, verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg, rak augun í auglýsingu um starf í fjölmiðlum í vikunni. Arnar tók sig til og sótti um en óhætt er að segja að umsókn hans hafi verið af dýrari gerðinni.

Umsóknin um starf blaðamanns á Smartlandi er nefnilega í bundnu formi. Um er að ræða ljóð í ellefu erindum sem er nokkuð hörð ádeila á efnistök lífstíls- og dægurmálasíðna.

Arnar deildi umsókninni með vinum sínum á Facebook og segist vonast til þess að umsókn sinni verði svarið. Raunar vonist hann til að fá vinnuna en koma verður í ljós hvort svarið verði á bundnu formi eður ei.

Umsókn Arnars má sjá hér að neðan en hann gaf góðfúslegt leyfi fyrir birtingunni.

Ég er góður og glaðlegur penni.

Glúrinn að senda í prentun

blöð sem að seljast í hrúgum.

Svo er ég með háskólamenntun.

Með frábæra samskiptafærni

frumkvæði í æðum mér brennur.

Metnaðarfullur og mjúkur

mér blóðið til skyldunnar rennur.

Með einlægan áhuga á fólki,

íslenskukunnáttugikkur.

Ég er sko akkúrat maður

sem ætti að vinna hjá ykkur.

En sannleikann veit ég hinn svarta,

af Smartlandi er fnykur og þefur.

Ég má til að segja þér, Marta:

Mér finnst þetta ógeðisvefur.

Þar skiptir útlitið öllu,

yfirborðsmennska þar dvelur.

Dreymandi um frægð eða fegurð

fólkið þar heimskuna elur.

Þarna er fasteignafárið,

þær fara á milljarð í hasti.

Flottasta húðin og hárið.

Heimurinn þinn er úr plasti.

Heillandi massaðir hönkar.

Horaðar brosandi glennur.

Á eilífðardjamminu eru

allir með fallegar tennur.

Ráðgjöf til ringlaða fólksins:

„Reyndu að verða svona.“

Glamúr og förðun og frami.

Flissandi ógæfukona.

Í sorpblaðamennskunni, beibí,

brautirnar eru svo hálar.

Það kostar samt ekkert að hafa

aðgát í nærveru sálar.

Ég veit að þú íhugar þetta.

Þinn einlægur fallega biður.

Smartland er rjúkandi rústir

og réttast að leggja það niður.

Ég huga og hjarta hef kannað.

Heillandi finnst mér ei vinnan.

Farðu að gera eitthvað annað.

Fegurðin kemur að innan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.