Innlent

Með gula hjálma í móttökunni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Starfsmenn á heilsugæslunni á Höfða sinntu störfum sínum í morgun með gula hjálma á höfði.
Starfsmenn á heilsugæslunni á Höfða sinntu störfum sínum í morgun með gula hjálma á höfði. Vísir

Mikið álag hefur verið á starfsfólki á Heilsugæslunni hér á landi undanfarnar vikur. Árleg inflúensa hefur verið á sínum stað í bland við almenn veikindi og svo bættist kórónuveiran við í febrúar og viðbúnaður vegna þeirra.

Starfsfólk í móttöku á heilsugæslunni á Höfða skartar eins konar hjálmum við störf sín sem vænta má að sé til þess að minnka smithættu.

Þórður G. Ólafsson, yfirlæknir á heilsugæslunni, bað fólk á blaðamannafundi almannavarna í gær að lesa sér fyrst til um kórónuveiruna á heimasíðu Landlæknis áður en það setur sig í samband við heilsugæsluna. Mikið álag sé á fólki í framlínu heilsugæslunnar og fólk í neyð þurfi að ganga fyrir.

Þá biðlaði hann líka til stjórnenda í stórum fyrirtækjum að vanda vel til verka og hugsa sig um áður en það sendir skilaboð á starfsmenn vegna kórónuveirunnar. Borið hafi á því að slíkir póstar hafi búið til óþarfa stress á vinnustöðum og fólk hringi í uppnámi í 1700. Mikilvægt sé að fólk haldi ró sinni og það gildi líka um stjórnendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×