Vísitalan hækkar um 50%
Úrvalsvísitalan fór yfir þrjú þúsund stig í gær í fyrsta sinn og hefur hækkað um helming á rúmum sjö mánuðum. Hækkun á hlutabréfum um helmings fimmtán fyrirtækja innan vísitölunnar er meðal skýringa. Staða fimmtán helstu fyrirtækja á íslenska markaðnum endurspeglast í úrvalsvísitölunni. Í viðskiptum líkt og í íþróttum snýst allt um tölur og í nóvember í fyrra fór vísitalan yfir 2.000 stig. Nú, rúmum sjö mánuðum síðar, er hún komin yfir 3.000 stiga múrinn. Atli B. Guðmundsson hjá greiningardeild Íslandsbanka segir þetta vísbendingu um góða stöðu markaðarins, betri rekstur og meiri væntingar til fyrirtækjanna. Hann vill þó ekki meina að um almennar hækkanir á hlutabréfum sé að ræða heldur fyrst og fremst hækkun á hlutabréfum í sex til átta stærstu félögunum. Er þar verið að tala um bankana þrjá: KB, Íslandsbanka og Landsbanka, lyfjafyrirtækið Actavis, matvælafyrirætkið Bakkavör og fjárfestingarfélögin Straum og Burðarás. Einnig hefur gengi stoðtækjafyrirtækisins Össurar hækkað á ný eftir lækkun í fyrra. Það lítur út fyrir áframhaldandi hækkun því nú rétt fyrir fréttir var úrvalsvísitalan komin í 3.008 stig.