Körfubolti

Ég tek þetta á mig

Benedikt Guðmundsson var mjög ósáttur við sína menn í kvöld
Benedikt Guðmundsson var mjög ósáttur við sína menn í kvöld

Benedikt Guðmundsson þjálfari KR var afar óhress með frammistöðu sinna manna í kvöld þegar þeir létu ÍR-inga flengja sig á heimavelli og féllu úr leik í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í körfubolta.

"ÍR-ingarnir stóðu við stóru orðin, mættu öflugir til leiks og áttu sinn besta leik. Mér fannst við bara aldrei vera inni í þessum leik og þeir settu strax á svið flugeldasýningu í fyrsta leikhluta," sagði Benedikt.

Íslandsmeistararnir eru því fallnir úr leik í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og Benedikt vill taka ábyrgð á þeirri staðreynd.

"Mér hefur ekki tekist að fá það besta út úr mönnum eins og Brynjari, Helga og Sola, svo ég tek þetta bara alfarið á mig. Mér fannst við bara vera flatir. Annað hvort vorum við svona góðir með okkur eða svona spenntir. Mér bara mistókst algjörlega að stappa stálinu í liðið fyrir þennan leik. Það að falla úr leik í fyrstu umferð er auðvitað alveg óásættanlegt," sagði Benedikt í samtali við Stöð 2 Sport.

Hreggviður Magnússon, leikmaður ÍR, gaf út stórar yfirlýsingar eftir fyrsta leikinn og hann var að vonum borubrattur þegar Arnar Björnsson náði tali af honum eftir leikinn í kvöld.

"Við vissum það þegar þessi sería byrjaði að við værum með betra lið en KR og við stóðum við stóru orðin - en það gerði Fannar Ólafsson (leikmaður KR) ekki. Við vissum að við myndum vinna í kvöld, Fannar talaði um rassskellingu, en þetta er rassskelling," sagði Hreggviður brattur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×