Þær upplýsingar fengust hjá rektorsskrifstofu Háskóla Íslands í dag að ákvörðunar væri að vænta í máli prófessors Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar fyrir helgi en yfirstjórn skólans fundar nú um málið.
Fimmtudaginn 13. mars fann Hæstiréttur Íslands Hannes sekan um brot gegn höfundarétti ekkju Halldórs Kiljans Laxness á verkum hans. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður sýknað Hannes af ákærunni en Hæstiréttur sakfelldi fyrir brot á u.þ.b. tveimur þriðju ákæruliðanna með þeim rökstuðningi að hann hefði nýtt sér texta skáldsins ýmist lítið breyttan eða nokkuð breyttan en haldið stíleinkennum og notað um leið einstakar setningar og setningarbrot lítt breytt og án þess að vísa til heimildar.
Var Hannes dæmdur til greiðslu samtals 3.100.000 kr. í skaðabætur og málskostnað.