Sport

Lést eftir göngu með Ólympíueldinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Kyndilberi lét lífið af völdum hjartaáfalls í Rússlandi í gær.

Vadim Gorbenko, 73 ára gamall leikfimikennari og þjálfari í grísk-rómverskri glímu, fékk hjartaáfallið að lokinni göngu með Ólympíueldinn í Rússlandi í gær. Hann lét lífið á sjúkrahúsi nokkrum klukkustundum síðar.

Gorbenko gekk með kyndilinn um 150 metra í heimabæ sínum Kurgan í vesturhluta Síberíu. Gangan virtist ganga áfallalaust fyrir sig en að lokinni myndatöku kenndi hann sér meins og var fluttur á sjúkrahús. Lífgunartilraunir báru ekki tilætlaðan árangur.

Að sögn talsmanns Ólympíuverkefnis Rússa var Gorbenko við meðvitund er hann var fluttur á sjúkrahús. Hann mun hafa rætt við son sinn á dánarbeðinu.

Ferðalag Ólympíueldsins í Rússlandi, fjögurra mánaða verkefni yfir um 65 þúsund kílómetra leið, hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig. Ítrekað hefur eldurinn slokknað og á dögunum kviknaði í jakka eins kyndilberans.

Um 14 þúsund manns halda á Ólympíueldinum á leið sinni til Sochi þar sem opnunarhátíð Vetrarólympíuleikanna fer fram þann 7. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×