„Þessar gjörðir eru óneitanlega hryðjuverk,“ sagði François Hollande, forseti Frakklands, við fjölmiðla í gær um tvö morð í París í fyrrakvöld. Hinn 25 ára gamli Larossi Abballa var handtekinn í gær, grunaður um morðin.
Abballa fæddist í úthverfi Parísar, Mantes-la-Jolie, en hann var handtekinn árið 2011 og dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi árið 2013 fyrir að hafa ráðið hermenn til að berjast í heilögu stríði í Pakistan.
Fyrr um daginn hafði Abballa svarið hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki hollustueið í beinni útsendingu á Facebook og í gær kallaði fréttastofa samtakanna, Amaq, hann hermann Íslamska ríkisins.
Fórnarlömb árásarinnar voru hjón, en karlmaðurinn var aðstoðarlögreglustjóri lögreglustöðvar nærri heimili þeirra. Á Abballa að hafa ráðist að heimili þeirra vopnaður hnífi um níuleytið, öskrandi „Allahu akbar“ eða Guð er mikill, samkvæmt vitnum. Á hann svo að hafa komið aftan að lögreglumanninum utan við hús hans og myrt hann áður en hann fór inn í húsið og byrgði fyrir dyrnar. Þá kom lögregla á vettvang á meðan Abballa á að hafa haldið konunni og barni þeirra í gíslingu. Pierre-Henry Brandet, talsmaður innanríkisráðuneytisins, segir lögreglu ekki hafa tekist að fá Abballa til að sleppa gíslunum og því hafi verið gert áhlaup á húsið upp úr miðnætti. Inni fundu lögreglumenn barnið á lífi en móðurina ekki.
Hollande segir hjónin hafa verið myrt af hugleysi og segir Frakkland enn sæta umtalsverðri ógn af völdum hryðjuverkamanna. Hollande fundaði með öryggisyfirvöldum í Frakklandi í gær en neyðarástand hefur ríkt í landinu frá árásunum á París í nóvember. Í gær sagði Bernard Cazeneuve innanríkisráðherra að rúmlega hundrað hafi verið handteknir í Frakklandi, grunaðir um að skipuleggja hryðjuverk, á þessu ári.
Facebook-reikningi Abballa var lokað stuttu eftir útsendinguna þar sem hann sór hryðjuverkasamtökunum hollustueið svo ekki er hægt að nálgast myndbandið lengur. David Thomson, franskur sérfræðingur í íslömskum hryðjuverkasamtökum og blaðamaður RFI, sagði á Twitter-síðu sinni að í myndbandinu hefði mátt sjá Abballa velta fyrir sér hvað gera ætti við barn hjónanna. Enn fremur segir hann Abballa hafa talað um Evrópumeistaramótið í knattspyrnu sem nú fer fram. „Evrópumeistaramótið verður kirkjugarður,“ sagði Thomson Abballa hafa sagt.
Marc Trevidic, sem yfirheyrði Abballa eftir handtöku hans árið 2011, segir Abballa einn af átta manna hópi í viðtali við Le Figaro. Tveir úr þeim hópi hafi ætlað að ferðast til Lahore í Pakistan til að hitta yfirráðamann al-Kaída á svæðinu en verið handteknir þegar á flugvöllinn var komið. „Hann vildi heilagt stríð, það er víst. Hann hafði verið í þjálfun í Frakklandi, ekki herkænskuþjálfun heldur líkamlegri,“ sagði Trevidic.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. júní.
Hollande segir morðin óneitanlega hryðjuverk
Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Mest lesið
![](/i/CEE683BAD3A65C544F165067AF0FA506D524552A0162AA676B481C19A390A07B_240x160.jpg)
![](/i/484D6BBD59A8803ACF8C29534FC68CB88DDE668C752D9B1E5B24B8CE37792393_240x160.jpg)
![](/i/E5FFD733BB5282C2A78059B5EB3EA018646723B62731DD3C1002AAA76166388E_240x160.jpg)
Ætla að sleppa þremur gíslum
Erlent
![](/i/4CD5BE7FA0F40E16A8361557DB8B097A2BC537B3F49082A59FF94C95864A0621_240x160.jpg)
![](/i/E037466FFA4B2E96D714CCA276D1939E4A432271FED38A56D42BD079E032707A_240x160.jpg)
![](/i/EBBD50CAE51BE77806946AEDCEF4B6BB3C660D9B2CCDD9EEE30FB6FC90F4AB58_240x160.jpg)
Orðið samstaða sé á allra vörum
Innlent
![](/i/B28D7DFD22E780EB219C66A5531EE5C814CD430405917B13B7B9EAB1D378D8D6_240x160.jpg)
![](/i/5B9172F479A33DDA500F731BF11870DF227529D1E3D86E1D253D07DD2D510BA6_240x160.jpg)
„Þetta er beinlínis hryllingur“
Innlent
![](/i/B0DF1F69A2468D558858DC80565CAB656D53F8E890D3FDD53A04EC312C146C53_240x160.jpg)
![](/i/F29401476D36DF8CF40D4E5EF2163FA19A0354C974F8DB707A3270123D936538_240x160.jpg)