Erlent

Um fjörutíu manns létust

Á fjórða tug manna, kvenna og barna lést í árásum og bardögum í Írak í gær. Í það minnsta 21 lét lífið og um hundrað manns særðust í tveimur sprengjuárásum í Bagdad í gær. Ellefu létust í loftárásum Bandaríkjamanna í Falluja að sögn lækna, þeirra á meðal konur og börn. Tvær sprengjuárásir voru gerðar í Bagdad, nærri hliði að græna svæðinu svokallaða þar sem bandaríska herstjórnin og írösk stjórnvöld hafa aðstöðu sína. Þar létust fimmtán og 81 einstaklingur særðist. Klukkutíma síðar var gerð sprengjuárás á bílalest sem var að yfirgefa hótel þar sem erlendir verktakar og fjölmiðlamenn hafast við og skömmu síðar hófu ókunnir vígamenn skothríð af þökum í nágrenninu. Í það minnsta sex létust í þeirri árás og fimmtán særðust. Tvær bílasprengjur sprungu í Mosul. Í annarri létust tveir sem talið er að hafi verið vígamenn. Í hinni lést vegfarandi. Lögreglustjóri var skotinn til bana í Baqouba og einn lést og sjö særðust þegar sprengju úr sprengjuvörpu var skotið á stjórnarbyggingu. Þá var háttsettur embættismaður ráðinn af dögum í Bagdad og tveir gíslar myrtir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×