Skoðun

Vilja flytja kýr í flugvélum

Ögmundur Jónasson skrifar
Það er ekki nóg með að ríkisstjórnin vilji gera kýr að flugvélafarþegum. Hún vill senda heilar hjarðir í heimsreisur. Og ekki bara nautgripi heldur líka kjúklinga og svín. Að vísu ekki lifandi, heldur dauð. Steindauð, tilbúin á steikarfatið. Heimsreisur? Mér er sagt að ódýrustu kjúklingar á markaði í Evrópu séu komnir alla leið frá Austur-Asíu, Kína og Taílandi.

Þetta er inntakið í samningi Íslands við Evrópusambandið um að örva viðskipti með kjöt milli Evrópumarkaðar og Íslands. Samningurinn hefur að vísu enn ekki verið staðfestur og verður það vonandi ekki.

Ýmsir hafa fundið að þessum samningi á margvíslegum forsendum. Ég er í þeim hópi og hef nefnt ýmsa þætti. Í þessum línum vil ég benda sérstaklega á einn þessara þátta, umhverfisþáttinn. Og ég spyr: Vilja menn virkilega ekki reyna að stuðla að því að samfélög verði sem best sjálfbær um framleiðslu á mat í nærumhverfi sínu?

Aukin ferðamennska í heiminum er jákvæð þróun. Það er skemmtilegt og eftirsóknarvert að heimsækja fjarlægar slóðir. Það finnst okkur flestum og ef vel er á haldið getur af ferðamennskunni spunnist spennandi nýsköpun í atvinnurekstri og gert okkur betur meðvituð um stórkostlegan margbreytileika heimsins í náttúrufari og menningu. Þennan margbreytileika á að leggja rækt við. Þar hafa Íslendingar margt fram að færa, og viti menn, ekki síst í matvælaframleiðslu!

En ferðamennskan á sér takmörk, enda hóf á öllu best. Hún setur þannig aukið álag á umhverfið, mengandi flugumferð er að margfaldast og hin risastóru skemmtiferðaskip eru sögð mikill mengunarskaðvaldur.

Og ofan á þetta allt vilja menn nú senda naut, þúsundum saman, hænur og svín, í flugferðir heimshorna á milli.

Er þetta skynsamleg stefna? Tökum afstöðu í þessu máli, sem á sér hliðar sem kunna að reynast afdrifaríkari en margan grunar. Látum síðan framtíðinni eftir að greina afstöðu okkar, hver reyndust vera framsýn og hver afturhald.

Vilja menn virkilega ekki reyna að stuðla að því að samfélög verði sem best sjálfbær um framleiðslu á mat í nærumhverfi sínu?

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. júní.




Skoðun

Sjá meira


×