Erlent

Dauðadómur yfir fyrrverandi forseta Pakistans ógiltur

Kjartan Kjartansson skrifar
Stuðningsmaður Musharraf mótmælir dauðadómi yfir honum í Karachi á nýársdag.
Stuðningsmaður Musharraf mótmælir dauðadómi yfir honum í Karachi á nýársdag. Vísir/EPA

Dómstóll í Pakistan felldi dauðadóm yfir Pervez Musharraf, fyrrverandi forseta landsins, úr gildi í dag. Musharraf var dæmdur til dauða fyrir landráð í desember en málsmeðferðin var talin stríða gegn stjórnarskrá landsins.

Sérstakur dómstóll dæmdi Musharraf til dauða um miðjan desember en hann kærði málsmeðferðina. Hæstiréttur í Lahore komst að þeirri niðurstöðu að stofnun dómstólsins sem dæmdi hann og skipan dómara hafi strítt gegn stjórnarskrá. Breska ríkisútvarpið BBC segir að dómurinn hafi því verið ógiltur og Musharraf sé frjáls maður.

Musharraf, sem sat sem forseti frá 2001 til 2008 eftir að hann rændi völdum í Pakistan árið 1999, var fyrst ákærður fyrir landráð árið 2014. Þau átti hann að hafa framið með því að lýsa yfir neyðarástandi sem felldi stjórnarskrána úr gildi svo hann gæti setið lengur á forsetastóli árið 2007. Hann sagði af sér árið 2008 í skugga mótmæla og mögulegrar kæru fyrir embættisbrot.

BBC segir að mögulega verði hægt að rétta aftur yfir Musharraf. Hann var ekki viðstaddur dauðadóminn í Pakistan því honum var leyft að yfirgefa landið árið 2016. Hann hefur dvalið í Dúbaí.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×