Erlent

Hlutverk markaðarins í Wuhan ekki ljóst samkvæmt WHO

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá markaði í Wuhan.
Frá markaði í Wuhan. AP/Ng Han Guan

Tiltekinn markaður í Wuhan í Kína spilaði einhverja rullu í upphafi heimsfaraldurs nýju kórónuveirunnar (Sars-CoV-2) í fyrra. Ekki liggur þó fyrir hvort veiran hafi færst úr dýrum yfir í menn þar eða hafi áður stökkbreyst svo hún gæti smitað menn þegar hún barst þangað. Þetta segir Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) og ítreka starfsmenn hennar að frekari rannsókna sé þörf.

Meðal annars voru lifandi og dauð dýr keypt og seld til manneldis á þessum markaði. Honum var þó lokað í janúar og settu yfirvöld Kína tímabundið bann á sölu lifandi villtra dýra.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur haldið því fram að vísbendingar bendi til þess að veiran hafi komið frá rannsóknarstofu í Wuhan. Hann hefur þó sagt að það sé ekki fullvíst.

Sérfræðingar hafa þó dregið það verulega í efa. Allt útlit er fyrir að veiran hafi þróast í náttúrunni.

Á blaðamannafundi í Genf í dag sagði Dr. Peter Ben Embarek, sérfræðingur WHO, að það hefði tekið vísindamenn ár að uppgötva að svínaflensan svokallaða frá 2012 hefði borist í menn úr kameldýrum.

Hann sagði ekki of seint að komast að hinu sanna og bætti við að það myndi hjálpa mikið ef hægt væri að finna sýni af veirunni, áður en hún stökkbreyttist.

Embarek sagði einnig að veiran hefði komið frá leðurblökum en hún geti einnig smitað ketti og svo hunda en minni líkur eru á því. Hann sagði einnig nauðsynlegt að rannsaka þá dreifingu frekar svo hægt væri að koma í veg fyrir faraldur meðal annarra dýra, sem gætu svo smitað menn.


Tengdar fréttir

Segir WHO hafa gefið heimsbyggðinni nægan tíma til undirbúnings

Forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) segir að stofnunin hafi gefið heimsbyggðinni nægan tíma til að búa sig undir kórónuveirufaraldurinn. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur gert WHO að blóraböggli fyrir faraldrinum og sakað stofnunina um að hafa klúðrað viðbrögðum við honum.

Trump-stjórnin sögð grafa undan WHO á bak við tjöldin

Bandaríkjastjórn hefur ekki aðeins stöðvað fjárframlög til Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) í miðjum kórónuveiruheimsfaraldri heldur eru Donald Trump forseti og nánustu ráðgjafar hans sagðir grafa undan stofnuninni á nokkrum vígstöðvum á bak við tjöldin. Undirróðurinn er sagður geta veikt stofnunina til lengri tíma litið.

Banna katta- og hundaát vegna kórónuveirunnar

Yfirvöld borgarinnar Shenzhen í Kína hafa bannað át hunda og katta. Það var gert til að sporna við sölu dýra en vísindamenn grunar að rætur nýju kórónuveirunnar megi rekja til dýramarkaðar Í borginni Wuhan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×