Innlent

Menntaskólinn í Hamrahlíð stóð uppi sem sigurvegari

Erna Agnes Sigurgerisdóttir skrifar
Liðið skipa Magdalena Guðrún Bryndísardóttir, Jessý Jónsdóttir, Ásmundur Jóhannsson, Ívar Dór Orrason og Unnar Ingi Sæmundsson.
Liðið skipa Magdalena Guðrún Bryndísardóttir, Jessý Jónsdóttir, Ásmundur Jóhannsson, Ívar Dór Orrason og Unnar Ingi Sæmundsson. Vísir/ Háskólinn í Reykjavík
Menntaskólinn við Hamrahlíð vann Boxið, framkvæmdarkeppi framhaldsskólanna sem haldin var í Háskólanum í Reykjavík í gær. Liðið skipuðu Magdalena Guðrún Bryndísardóttir, Jessý Jónsdóttir, Ásmundur Jóhannsson, Ívar Dór Orrason og Unnar Ingi Sæmundsson. Lið Kvennaskólans í Reykjavík varð í öðru sæti en lið Menntaskólans í Reykjavík varð í því þriðja.

Samtök iðnaðarins, HR og Samband íslenskra framhaldsskólanemenda standa að baki keppninni en þetta er í sjötta skiptið sem hún er haldin. Markmið keppninnar er að kynna og vekja áhuga nemenda í framhaldsskólum á verk- og tækninámi ásamt öðrum fjölbreyttum störfum í iðnaði.

Í keppninni eiga þátttakendur að leysa fjölbreyttar þrautir sem reyna á bóklega og verklega þekkingu, hugvit og verklag. Liðin þurfa að fara í gegnum þrautabraut sem innihélt átta þrautir. Þrautirnar eru sérhannaðar af sérfræðingum fyrirtækjanna CCP, ÍAV, Marel, Matís, ORF Líftækni, Orkuvirki, Trefjar og Verkís. Fræðimenn frá HR aðstoðuðu fyrirtækjasérfræðingana.

Meðal þrauta sem liðin þurftu að leysa var að verja egg fyrir falli úr þriggja metra hæð, byggja líkan af námuskipi úr tölvuleiknum EVE Online, smíða líkan af þrívíddarbyggingu prótíns og koma með hugmyndir að nýrri matvöru. Þrautirnar eru því jafn misjafnar og þær eru margar. Liðin fengu aðeins hálftíma til að leysa hverja þraut.

Lið frá Menntaskólanum við Hamrahlíð, Menntaskólanum í Reykjavík, Kvennaskólanum í Reykjavík, Menntaskólanum að Laugarvatni, Fjölbraut í Breiðholti, Menntaskólanum í Kópavogi og Fjölbrautaskóla Suðurlands kepptu til úrslita.  Forkeppnin var í lok október og tóku upphaflega 21 lið frá 13 skólum þátt. Menntaskólinn á Akureyri sigrað keppnina í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×