Erlent

100 tonna risaeðla í Ástralíu

Óli Tynes skrifar
Titanosaurus var engin smásmíði.
Titanosaurus var engin smásmíði.

Steingervingar af tveim risastórum risaeðlum hafa fundist í Ástralíu. Eðlurnar eru af tegundinni Titanosaurus og langstærsta tegund sem fundist hefur í landinu til þessa. Þær hafa verið um 100 tonn að þyngd og milli 26 og 35 metra langar. Þær reikuðu um sléttur Ástralíu fyrir 98 milljónum ára.

Streingervingarnir fundust í Queensland héraði árin 2005 og 2006, en var haldið leyndum fram til þessa til þess að gefa vísindamönnum frið til rannsókna. Vísindamennirnir eru að vonum himinlifandi yfir að hafa fundið langstærstu eðlutegund sem vitað er um að hafa verið til í Ástralíu.

Fátítt er að steingervingar finnist í Ástralíu og er það einkum vegna þess hve landið er gríðarlega stórt og strjálbýlt. Það eru yfirleitt bændur sem rekast á þá fyrir tilviljun á jörðum sínum, og var svo í þessu tilfelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×