Aflandskrónustabbinn hefur lækkað um 12 milljarða króna frá því að gildi tóku ný lög í byrjun marsmánaðar sem fela í sér losun fjármagnshafta á aflandskrónueigendur. Staða aflandskróna stendur núna í um 72 milljörðum, eða sem nemur 2,6 prósentum af landsframleiðslu.
Frá þessu er greint í nýrri greinargerð fjármála- og efnahagsráðuneytisins um framgang áætlunar um losun hafta en þar segir: „[L] osun takmarkana á aflandskrónueignir hefur ekki leitt til verulegs útstreymis gjaldeyris frá landinu.“ Þá hafi hluti lækkunarinnar þegar streymt aftur til landsins.
Þannig nam hreint innflæði fjármagns ríkisskuldabréfa í marsmánuði samtals tíu milljörðum króna í kjölfar lækkunar bindiskyldunnar niður í núll prósent í byrjun þess sama mánaðar. Til samanburðar var hreint innflæði fjármagns í ríkisskuldabréf aðeins einn milljarður á öllu árinu 2018.
