Katie Miller, fjölmiðlafulltrúi Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, greindist með kórónuveiruna í dag, daginn eftir að annar starfsmaður Hvíta hússins greindist með veiruna.
Miller er einn af aðalráðgjöfum varaforsetans og náinn samstarfsmaður hans. Þá er hún auk þess gift Stephen Miller, ráðgjafa Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta.
Í frétt BBC um málið segir að sex einstaklingum sem starfa fyrir Pence hafi verið fylgt í flýti út úr flugvél hans í Washington DC í dag, rétt áður en hún átti að leggja af stað til Iowa.
Starfsmennirnir sex höfðu allir átt nýverið í samskiptum við Miller. Það höfðu hins vegar hvorki Pence né Trump gert, að því er fram kemur í tilkynningu.
Bæði Trump og Pence eru skimaðir fyrir veirunni á hverjum degi. Greint var frá því í gær að einkaþjónn Trumps hefði greinst með veiruna.