Erlent

Tala látinna hækkar eftir hvirfilbylina í Tennessee

Kjartan Kjartansson skrifar
Kona virðir fyrir sér eyðilegginguna í Nashville eftir að hvirfilbylir gengu yfir Tennessee í nótt.
Kona virðir fyrir sér eyðilegginguna í Nashville eftir að hvirfilbylir gengu yfir Tennessee í nótt. AP/Mark Humphrey

Yfirvöld í Tennesse-ríki í Bandaríkjunum segja nú að í það minnsta nítján séu látnir eftir að nokkrir skýstrókar gengur yfir ríkið í nótt. Að minnsta kosti fjörutíu byggingar hrundu í hamförunum, þar á meðal í miðborg höfuðborgarinnar Nashville.

Hundruð manna eru sögð heimilislaus vegna skemmdanna sem hvirfilbylirnir ollu á byggingum. Tala látinna hefur hækkað eftir því sem á hefur liðið daginn en leitar- og björgunarfólk hefur unnið að því að draga eftirlifendur og lík úr rústum húsa.

Ofsaveðrið olli meðal annars verulegum skemmdum í tveimur af fínni hverfum Nashville þar sem mikil uppbygging hefur átt sér stað undafarin ár, að sögn AP-fréttastofunnar.

„Þetta er átakanlegt. Það varð mannskaði í öllu ríkinu,“ sagði Bill Lee, ríkisstjóri, sem lýsti yfir neyðarástandi og skipaði öllum opinberum starfsmönnum ríkisins sem ekki sinna grunnþjónustu að halda sig heima.

Götum hefur verið lokað, skólahald og starf dómstóla liggur niðri og þá var ríkisþinginu lokað vegna hamfaranna. Tugir þúsunda íbúa Tennessee eru jafnframt án rafmagns eftir að rafmagnslínur slitnuðu.

Washington Post segir að fjórtán þeirra sem fórust hafi verið í Putnam-sýslu, tveir í Wilson-sýslu og einn í Benton. Karl og kona létust þegar þau urðu fyrir braki í Davidson-sýslu sem Nashville tilheyrir. Um tuttugu manns til viðbótar voru lagðir inn á sjúkrahús, að sögn John Cooper, borgarstjóra Nashville í morgun.

Tennessee er á meðal þeirra fjórtán ríkja sem halda prófkjör í forvali Demókrataflokksins í dag. Færa hefur þurft kjörstaði með stuttum fyrirvara og breyta opnunartíma einhverra þeirra vegna afleiðinga byljanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×