Tónlist

Rödd Elton John gaf sig á miðjum tónleikum

Andri Eysteinsson skrifar
Elton John lagði sig allann fram í Auckland.
Elton John lagði sig allann fram í Auckland. Getty/Dave Simpson

Tónlistargoðsögnin Elton John neyddist til að aflýsa tónleikum sínum í Auckland í Nýja Sjálandi eftir að hafa misst röddina þegar tónleikarnir voru hálfnaðir. Áður hafði John tilkynnt tónleikagestum að hann hafi greinst með lungnabólgu en ætlaði ekki að láta það á sig fá.

John sem er 72 ára gamall er um þessar mundir á Goodbye Yellow Brick Road tónleikaferðalagi sínu og voru tónleikarnir á Mount Smart-vellinum í Auckland þeir fyrstu á Nýja Sjálandi. „Ég er algjörlega búinn að missa röddina, ég get ekki sungið. Ég þarf að fara, ég biðst afsökunar,“ sagði John við tónleikagesti eftir að röddin hafði gefið sig.

BBC greinir frá að John hafi þegar sungið þekkt lög á borð við Candle in the Wind og All the Girls Love Alice og var í miðjum flutningi á laginu Daniel þegar allt kom fyrir ekki.

John bað aðdáendur sína enn og aftur afsökunar á Instagram-síðu sinni. „Ég spilaði og söng af öllu hjarta. Ég er vonsvikinn og sár. Ég gaf allt sem ég átti í frammistöðuna. Takk fyrir óviðjafnanlegan stuðning og alla þá ást sem mér var sýnd í kvöld. Ég verð að eilífu þakklátur,“ skrifaði söngvarinn.

Ekki er ljóst hvort veikindi Elton John muni hafa frekari áhrif á tónleikaferðalag hans en áformaðir eru tvennir tónleikar til viðbótar í Auckland.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.