Innlent

Útvarpsstjóri fékk 78% meiri launahækkun en forstjóri Flugstoða

Páll Magnússon er með 600 þúsund krónum meira á mánuði en Þorgeir Pálsson.
Páll Magnússon er með 600 þúsund krónum meira á mánuði en Þorgeir Pálsson. SAMSETT MYND

Á meðan laun Páls Magnússonar útvarpsstjóra hækkuðu um 87,5% þegar Ríkisútvarpinu var breytt í opinbert hlutafélag hækkuðu laun Þorgeirs Pálssonar, forstjóra Flugstoða, um 9,75% þegar það sama var gert við Flugmálastjórn. Páll er með sex hundruð þúsund krónum hærri mánaðarlaun en Þorgeir.

Áður en Ríkisútvarpið varð að opinberu hlutafélagi heyrðu launakjör Páls Magnússonar undir Kjararáð. Þar var hann með um 800 þúsund krónur á mánuði. Þegar RÚV varð opinbert hlutafélag hækkuðu laun hans hins vegar skyndilega í 1,5 milljón á mánuði, launahækkun upp á 87,5%. Páll sagði á dögunum í samtali við Vísi að hann teldi laun sín eðlileg miðað við stjórnendur í meðalstórum fyrirtækjum.

Þorgeir Pálsson fékk hins vegar ekki jafn hressilega launahækkun og Páll þegar Flugumferðastjórn varð að opinberu hlutafélagi undir nafninu Flugstoðir. Þorgeir var betur settur en Páll áður en fyrirtækin urðu opinber hlutafélög. Þá var hann með 820 þúsund, tuttugu þúsund meira en Páll. Eftir opinberu hlutafélagavæðinguna hækkuðu laun Þorgeirs upp í 900 þúsund eða um 9,75%. Þetta kom fram í svari Hrafnhildar Brynju Stefánsdóttur, starfandi upplýsingafulltrúa Flugstoða, við fyrirspurn Vísis um laun Þorgeirs forstjóra.

Þess ber að geta að það tók Hrafnhildi aðeins nokkra daga að svara fyrirspurn Vísis um laun Þorgeirs Pálssonar. Ómar Benediktsson, stjórnarformaður RÚV ohf, neitaði fyrst að upplýsa um laun Páls Magnússonar útvarpsstjóra þegar Vísir spurðist fyrir um þau en gaf sig loks eftir að neitun hans hafði verið kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingalög. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×