Innlent

SI greiðir 2,5 milljóna króna sekt til Samkeppniseftirlitsins

Jón Steindór Valdimarsson er framkvæmdastjóri SI.
Jón Steindór Valdimarsson er framkvæmdastjóri SI.

Samtök iðnaðarins og Samkeppniseftirlitið hafa gert sátt í máli tengdu því þegar virðisaukaskattur og vörugjöld voru lækkuð 1. mars síðastliðinn. Greiða samtökin 2,5 milljóna króna sekt til eftirlitsins.

Fram kemur í tilkynningu frá Samtökum iðnaðarinnar að þau hafi beitt sér fyrir því að lækkunin skilaði sér frá fyrsta degi til neytenda. Samkeppniseftirlitið segi hins vegar að sú aðferðafræði, sem var notuð, hafi falið í sér brot á hlutlægum reglum samkeppnislaga en þá skipti ásetningur eða afleiðing brots engu máli við mat á því hvort brot hafi átt sér stað eða ekki.

Sátt hafi náðst í málinu en Samtök iðnaðarins segja að hún feli ekki í sér að samtökin hafi haft ásetning til þess að brjóta lög, né heldur að þau eða félagsmenn þeirra hafi haft af aðgerðunum ólögmætan ágóða, eða að skattalækkanirnar hafi ekki skilað sér að fullu til neytenda.

Málavextir eru þeir að Samtök iðnaðarins beittu sér fyrir því að gripið yrði til samstilltra aðgerða milli framleiðenda og verslana um að setja kjöt og osta, sem eru verðmerkt hjá framleiðendum, í verslanir frá og með 20. febrúar með lægri sköttum, þrátt fyrir að þurfa að standa ríkissjóði skil á hærri sköttum af sömu vörum til 1. mars. Tapinu, sem óhjákvæmilega varð af þessu, var skipt milli framleiðenda og verslana en bæði neytendur og ríki fengu sitt að sögn Samtakanna. Frá þessu var sagt í fjölmiðlum fyrir 1. mars og í kjölfarið hóf Samkeppniseftirlitið rannsókn málsins. Niðurstaða rannsóknarinnar var að með þessum samstilltu aðgerðum hefðu Samtök iðnaðarins brotið samkeppnislög og hindrað samkeppni.

„Fyrir SI hefur eingöngu vakað að tryggja hag neytenda með aðgerðum sínum og SI líta ekki svo á að nein samkeppnistækifæri hafi glatast. SI fallast hins vegar á að í skilningi samkeppnislaga hafi verið um samstilltar aðgerðir að ræða. Reglurnar eru fortakslausar og hlutlægar á þann hátt að ásetningur og afleiðingar samstilltu aðgerðanna skipta ekki máli við mat á lögmæti þeirra. Eftir á að hyggja telja SI að rétt hefði verið að leita eftir undanþágu SE fyrirfram fyrir hinum samstilltu aðgerðum. Það hefði hins vegar engu breytt um efnisatriði málsins, þ.e. að lækkun virðisaukaskatts og vörugjalda af ostum og kjötvörum var skilað að fullu til neytenda. Það var einungis óhjákvæmilegu tapi sem var skipt milli framleiðenda og verslunar," segir í tikynningu Samtaka iðnaðarins

Þar segir einnig: „Samtök iðnaðarins hafa ekki og munu ekki standa fyrir neins konar aðgerðum sem fela í sér að félagsmenn hafi, með ólöglegum eða óeðlilegum hætti, áhrif á samkeppni eða verð til neytenda. Þau munu því herða á starfsreglum sínum til þess að tryggja enn frekar að slíkt muni ekki gerast."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×