Erlent

Múslimar brenna aftur danska fánann

Óli Tynes skrifar
Dannebrog brenndur.
Dannebrog brenndur. AP/Myndasafn

Fyrstu viðbrögðin eru nú komin við þeirri ákvörðun danskra fjölmiðla að birta aftur hinar umdeildu teikningar af Múhameð spámanni.

Danski fáninn var brenndur í Pakistan í dag og þingmenn í Kúveit hvetja til algers viðskiptabanns á Danmörku.

Þingmaðurinn Waleed al-Tabtabai flutti þrumuræðu á þinginu í dag. Hann kallaði dönsku ríkisstjórnina hunda og krafðist þess að algert viðskiptabann verði sett á Danmörku.

Dönsk stjórnvöld hafa þegar sent út aðvörun til þegna sinna að fara varlega í löndum múslima. Ríkisstjórnin bíður nú milli vonar og ótta eftir að sjá hvort ófriðarbálið verði jafn heitt og útbreitt og þegar myndirnar voru fyrst birtar á síðasta ári.

Þá létust sex manns og tugir særðust í óeirðum víða í múslimalöndum. Dönsk fyrirtæki töpuðu milljörðum króna í viðskiptum.

Danskir fjölmiðlar ákváðu að birta myndirnar á nýjan leik eftir að upp komst að þrír múslimar ætluðu að myrða einn teiknarann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×