Innlent

Stóðhesturinn Arion í heimsókn í heilsuleikskólanum Kór

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Það var mikil spenna á heilsuleikskólanum Kór í Kópavogi í vikunni þegar eitt leikskólabarnið, Dagmar sem er tveggja ára, kom með stóðhestinn Arion frá Eystra-Fróðholti í heimsókn í leikskólann með aðstoð mömmu sinnar. Börnin fengu að klappa Arioni og Dagmar fór á bak fyrir þau.

Komið var með Arion á hestakerru í leikskólann en fyrri innan girðinguna biðu spennt leikskólabörn. Daníel Jónsson, hestamaður og Lóa Dagmar Smáradóttir sjá um Arion sem er 11 vetra stóðhestur og einn hæst dæmdi hestur heims.

Eftir að Daníel Jónsson hefur þjálfað Arion á daginn tekur Dagmar við honum klukkan 16:00 og nýtur þess að vera með honum fram á kvöld.Vísir/Magnús Hlynur Hreiðarsson
Dóttir þeirra, Dagmar sem er tveggja ára og er í  leikskólanum Kór hefur tekið ástfóstri við Arion. Hún fer á bak á honum eins og ekkert sé, teymir hann um og leikur sér í kringum hestinn.

„Á morgnanna þjálfar Daníel hann en eftir klukkan fjögur á daginn breytist hann í barnahest og sinnir henni. Hann stendur sig vel í því. Arion er svakalega geðgóður og gaman að sjá hvað hann breytist í kringum Dagmar, hann verður var um sig og það er eins og hann sé að passa upp á hana, það er mjög dýrmætt að sjá það“, segir  Lóa Dagmar, móðir Dagmarar.

Lóa segir að Arion skynji það örugglega að barn sé á ferðinni þegar Dagmar er í kringum hann því hann breytist í viljugan og kraftmikinn hest undir fullorðnum knapa. Arion mun keppa í A-flokki á landsmóti hestamanna í Reykjavík sem hefst um mánaðamótin en hann er efstur inn af þeim hestum sem keppa í þeim flokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×